132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[15:06]
Hlusta

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Sem 1. flutningsmaður þessa mikilvæga máls, sem flutt er af öllum þingflokki Samfylkingarinnar, vil ég þakka fyrir góða umræðu um kjör lífeyrisþega. Ég tel það forgangsverkefni og minn flokkur, enda fluttum við það sem fyrsta mál á þessu þingi, að bæta kjör lífeyrisþega. Það sem stendur upp úr þessari umræðu er hin breiða samstaða milli stjórnarandstöðunnar. Vinstri grænir og Frjálslyndir hafa líka með sínum hætti lagt fram tillögur og staðið fyrir því að þetta brýna mál yrði rætt. Ég vil einlæglega leyfa mér að vona að hér verði ekki bara talað. Þó að orð skipti máli og séu til alls fyrst þá skiptir framkvæmdin sköpum fyrir þann stóra hóp lífeyrisþega sem hefur þurft að búa við skert kjör á við aðra í góðærinu. Það skiptir máli að orðum fylgi efndir. Ég veit að minn flokkur, þegar hann tekur við stjórnartaumunum, mun setja þetta mál í forgang.

Það hefur líka vakið athygli mína í dag að stjórnarflokkarnir eru í fílabeinsturni. Þeir fáu sem hafa tekið til máls hafa haft allt á hornum sér og út úr orðum þeirra má lesa að ekki þurfi að bæta kjör aldraðra, þeir hafi lifað hér blómaskeið í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er líka athyglisvert að sá eini sem hefur tekið þátt í umræðunni af hálfu Framsóknarflokksins er hæstv. heilbrigðisráðherra sem átti hér í vök að verjast þegar hann var á þriðjudaginn að reyna að fegra kjör aldraðra með einhverri talnaleikfimi. En aldraðir vita betur, þeir finna það á pyngju sinni að kaupmáttur launa þeirra hefur ekki vaxið sem samsvarar kaupmætti launa hjá öðrum hópum.

Þau eru líka athyglisverð loforðin sem síðasti ræðumaður vitnaði í, og við höfum fleiri vitnað í. Loforðin sem nú munu skreyta borð landsfundar sjálfstæðismanna um að bæta kjör lífeyrisþega. Það vantar aldrei þegar þeir flagga sínum landsfundi eða rétt fyrir kosningar. En aldraðir vita, lífeyrisþegar vita og tekjulægstu hóparnir vita að það er ekkert að marka það sem stendur í landsfundarsamþykktum þeirra að því er varðar þessi mál. Í landsfundarsamþykktum skjóta gamlir draugar aftur og aftur upp kollinum án þess að staðið sé við þau loforð sem þar koma fram. Ég hvet þá sem eru í Sjálfstæðisflokknum og bera hag aldraðra fyrir brjósti að berjast hart á þessum landsfundi fyrir því að opna augu forustunnar fyrir því hve illa hefur verið farið með lífeyrisþega í tíð ríkisstjórnarinnar og berjast fyrir því að ná árangri á landsfundinum þannig að efndir fylgi orðum.

Það er rétt sem hér hefur komið fram, virðulegi forseti, að í tíð ríkisstjórnarinnar, á valdaferli hennar, hefur ójöfnuður vaxið mjög. Við höfum heyrt það í fréttum nú undanfarið hvernig ójöfnuður hefur stóraukist síðustu árin.

Hér segir í frétt Morgunblaðsins, með leyfi forseta:

„Tiltækar upplýsingar um tekjur á mann sýna að ójöfnuður hér á landi hefur stóraukist síðustu árin og er aukningin meiri en dæmi eru um frá nálægum löndum, að því er fram kemur í pistli á heimasíðu Þorvaldar Gylfasonar, prófessors við HÍ.“

Það þarf auðvitað engan Gini-stuðul til þess að leggja þetta á borð. Við í stjórnarandstöðunni höfum fundið að tekjuminnstu hóparnir í þjóðfélaginu hafa verið settir hjá í þeirri gósentíð, í því góðæri, sem við höfum búið við. Á sama tíma og tekjur samkvæmt vísitölu neysluverðs hafa hækkað um 100 milljarða kr. á örfáum árum, á tíu árum, hefur ríkisstjórnin gengið hart fram í því að skerða kjör aldraðra. Á sama tíma og raunaukning um hundrað milljarða kemur í ríkiskassann hefur lífeyrir lífeyrisþeganna verið skertur um 5 milljarða kr. Þetta er ríkisstjórninni fullkomlega til skammar. Þessu viljum við breyta.

Mig langar aðeins, forseti, að fara nánar ofan í hvaða þýðingu þessi tillaga hefur fyrir öryrkja og aldraða ef hún nær fram að ganga og ef hún kemst til framkvæmda. Ég á ekki von á því, virðulegi forseti, að það verði fyrr en Samfylkingin kemst til valda. Við viljum gera samning við lífeyrisþega um afkomutryggingu. Við viljum í fyrsta lagi skila þeim til baka því sem af þeim hefur verið tekið á síðustu tíu árum. Það þýðir að hækka þarf grunnlífeyri og tekjutryggingu um 12 þús. kr. og er þá miðað við desember 2004. Það eru 144 þús. kr. á ári, þannig að menn sjá hvað ríkisvaldið hefur tekið mikið af lífeyrisþegum.

Á sama tíma viljum við að fram fari úttekt á því hver neysluútgjöld lífeyrisþega eru. Það hefur komið fram hjá Hagstofunni að neysluútgjöld einstaklinga eru 160–170 þús. kr. Við viljum fá það staðfest hve mikil neysluútgjöld lífeyrisþega eru.

Þegar við erum búin að stilla lífeyrinn af miðað við það sem af hefur verið tekið, skila til baka þessum 144 þús. kr. á ári, setjum við markið á það að lífeyrir aldraðra og lífeyrisþega verði sem næst þessum skilgreindu afkomumörkum í neysluútgjöldum lífeyrisþega. Við viljum að samningurinn taki gildi 1. janúar 2007 og að frá þeim tíma breytist lífeyrir almannatrygginga í samræmi við launavísitölu. Þessu var kippt úr sambandi á árinu 1995 og var það fyrsta verk ríkisstjórnarinnar.

Jafnframt felst í þessari tillögu afar mikilvægur þáttur í kjörum aldraðra, þ.e. að draga úr skerðingarmörkunum. Það hefur verið farið yfir það hvað þessi skerðing er mikil, bæði varðandi grunnlífeyri og tekjutryggingu.Við viljum miða við það að lækka skerðingarhlutfall grunnlífeyris úr 30% í 20% og skerðingarhlutfall tekjutryggingar úr 45% í 30% og það mun kosta um 1.320 millj. kr. Skerðingin er svo gífurleg og Landssamtök eldri borgara hafa sett fram sláandi dæmi um hvaða áhrif þessi skerðing hefur ef lífeyrisþegar afla sér örlítilla tekna.

Þeir hafa t.d. sýnt fram á að fái lífeyrisþegar einhvers staðar 10 þús. kr. í atvinnutekjur á mánuði hækka ráðstöfunartekjur þeirra í mörgum tilfellum aðeins um 1.556. Aðeins 1.556 kr. af þessum 10 þús. kr. skila sér í vasa aldraðra og öryrkja. Þá erum við að tala um skerðingu og skatta sem skerða þessar 10 þús. kr. um 84,44%. Maður spyr: Hvar er hvatinn til aukins vinnuframlags fyrir lífeyrisþega og aldraða? Er það ekki þjóðfélaginu í hag að nýta sér starfskrafta aldraðra og öryrkja sem á annað borð geta verið eitthvað á vinnumarkaðnum, í hlutastarfi þó ekki sé meira eða unnið einhvern hluta vikunnar o.s.frv.? Vissulega er það til hagsbóta fyrir þjóðfélagið. Við vitum hvernig aldurskúrfan er og píramídinn í framtíðinni þar sem öldruðum mun fjölga og færri verða á vinnumarkaði. Auðvitað eigum við að nýta vinnuframlag aldraðra og lífeyrisþega og sjá til þess að þeir fái sómasamlega til baka það sem þeir vinna sér inn og að ekki sé allt hirt í skerðingu og skatta.

Við getum tekið sem dæmi, sem þjóðin þekkir, að t.d. ráðherrar eða þingmenn sem hætta og fara í fulla vinnu annars staðar fá líka lífeyri. Það er ekki verið að skerða hann. Það er ekki verið að skerða lífeyri þeirra um eina einustu krónu. Ef þeir halda áfram í fullu starfi einhvers staðar, í Seðlabankanum eða hvar sem það er, þá er ekki verið að skerða lífeyri þeirra út af þeim peningum sem þeir fá þar, en við skerðum lífeyri aldraðra og öryrkja svo mikið að þeir fá ekki nema 1.556 kr. af 10 þús. kr. tekjum sem þeir hafa aukreitis. Það er eitt mesta sanngirnismálið sem við stöndum frammi fyrir að leiðrétta að taka á þessum skerðingarmálum.

Ég vil líka nefna skattana, virðulegi forseti, og fer ég nú að ljúka máli mínu. Það er auðvitað til skammar að af 110 þús. kr. séu hirtar upp undir 15 þús. kr. í skatt. Þetta er ekki einu sinni fyrir brýnustu nauðþurftum. Við höfum það fyrir okkur að Hagstofan hefur mælt hver neysluútgjöld einstaklinga eru. Þau eru 170 þús. kr. og stjórnvöld leggjast svo lágt að taka 10–15 þús. kr. í skatt af þessum tekjum. Það er til skammar, virðulegi forseti, að hér á landi skuli neyðaraðstoð vera skattlögð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Þegar fólk á kannski ekki fyrir mat nema fyrstu 10 daga mánaðarins og fer til sveitarfélags síns til að fá eitthvað til að skrimta af, bara til að geta borðað út mánuðinn, leggjumst við svo lágt að skattleggja þetta, við skattleggjum þessa neyðaraðstoð fólks.

Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum flutt tillögu til þingsályktunar um skattfrelsi lágtekjufólks, um að afnema eða lækka verulega tekjuskatta lágtekjufólks og lífeyrisþega sem hafa tekjur undir lágmarkslaunum. Finnar hafa farið þá leið, þeir hafa farið endurgreiðsluleiðina. Hún er flókin en það á ekkert að vera of flókið fyrir okkur þegar um er að ræða að leiðrétta kjör þessara hópa og láta þá hafa sinn eðlilega skerf af því sem til skiptanna er í samfélaginu. Og þó að við séum að ræða hér um lífeyristryggingu og afkomutryggingu þeirra viljum við vekja athygli á því að í þessari tillögu er aðeins gert ráð fyrir að þetta sé fyrsti áfanginn vegna þess að við segjum að í næsta áfanga þurfum við að beita okkur fyrir því að teknar verði upp viðræður milli ríkisvaldsins, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins um afkomutryggingu þeirra sem af félagslegum, heilsufarslegum eða öðrum óviðráðanlegum ástæðum hafa ekki sér til framfærslu sem samsvarar lágmarkslaunum í þjóðfélaginu. Þar erum við m.a. að tala um atvinnulausa sem eru með 90 þús. kr. á mánuði. Verkalýðshreyfingunni tókst að tosa þetta upp, þetta voru 77 þús. kr. fyrir örfáum missirum. Þetta fólk, atvinnulausir, fær hvorki jólauppbót né orlofsuppbót sem aðrir í þjóðfélaginu fá og líka lífeyrisþegar sem betur fer, en atvinnulausir eru snuðaðir um þessar greiðslur sem er auðvitað til skammar og við í stjórnarandstöðunni höfum flutt tillögur um að bæta það.

Það er ekki bara, virðulegi forseti, að við höfum sett fram tölur um hve skerðingin er mikil hjá þessum hópum að því er varðar lífeyrisgreiðslurnar — ef litið er aftur til 1995 er hún 12 þús. á mánuði eða 144 þús. kr. á ári — heldur hefur lyfja- og lækniskostnaður þessa fólks hækkað. Öryrkjabandalagið hefur t.d. bent á að hjá mörgum sem þurfa að nota mikið af lyfjum eða leita oft til læknis fari tvenn mánaðarlaun í lyfja- og lækniskostnað. Ég spyr, virðulegi forseti: Búum við í velferðarsamfélagi þegar þeir sem sjúkir eru í þjóðfélaginu og þurfa á miklum lyfjum og læknisaðstoð að halda verða að borga sem samsvarar tveimur mánaðargreiðslum af lífeyri sínum í lyfja- og lækniskostnað auk þess að búa við alla þá skerðingu á lífeyri sem núverandi ríkisstjórn hefur boðið þeim upp á?

Og húsnæðiskostnaðurinn — hvað hefur leigukostnaður hækkað mikið á umliðnum árum hjá öldruðum, lífeyrisþegum og tekjulágu fólki sem er ofurselt leigumarkaðnum? Sumt af þessu fólki þarf kannski að borga sem samsvarar 75–80 þús. kr. í leigu á mánuði af 110 þús. kr. tekjum.

Virðulegi forseti. Ég sé að tíma mínum er að ljúka. Ég fagna þeirri samstöðu sem verið hefur milli stjórnarandstöðunnar um þetta mál í dag. Við munum breyta því þegar við erum komin í ríkisstjórn og ég segi við þá sem þurft hafa að búa við þau smánarkjör sem stjórnarflokkarnir hafa skammtað þeim: Refsið ráðherrunum á þessum bekkjum í næstu kosningum.