132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[15:53]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því í máli hæstv. forsætisráðherra að hann orðaði það eitthvað á þá leið að æskilegt væri að áfram tækist að bæta kjör fólksins í landinu og út af fyrir sig held ég að við séum ekki ósammála um það. En ég held að við séum töluvert ósammála um þá aðferð sem ríkisstjórnin hefur lagt upp með til að bæta kjör fólksins í landinu, einkanlega þá útfærslu á skattalækkunarprógrammi ríkisstjórnarinnar sem að því er mér sýnist kemur langmest til góða því fólki sem hefur hæstar tekjurnar en verst út fyrir það fólk sem hefur lægstar tekjurnar.

Hæstv. forsætisráðherra vék áðan í máli sínu að ungu millistéttar- og hátekjufólki og að taka þyrfti sérstakt tillit til þess í skattaútfærslunni. Ég skil orð hæstv. ráðherra þannig að útfærslan hafi beinlínis tekið mið af þessu fólki, fólki sem vinnur mikið og aflar tekna, er að kaupa sér hús, er með húsnæðislán o.s.frv. En ef ég man rétt, hæstv. forseti, voru vaxtabætur lækkaðar á síðasta ári. Eignarskattarnir koma ekki mikið til góða fólki sem skuldar mikið og ég dreg mjög í efa að það prógramm sem stefnt er að af ríkisstjórninni með niðurfellingu hátekjuskattsins nýtist almennt fólki á þessum aldri. Þó að það vinni mikið og afli sér tekna þarf það að hafa samanlagt verulega há laun eða a.m.k. milljón á mánuði til þess að það fari að nýtast. Ég tel að stefna ríkisstjórnarinnar hafi fyrst og fremst þjónað hagsmunum hátekjufólks.