132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[16:00]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bregðast við orðum hæstv. forsætisráðherra um að stjórnarandstaðan vildi bara líta til tekna. Hæstv. forsætisráðherra hefur misst af umræðum dagsins í dag, um aðgerðir í þágu aldraðra. Kjör þeirra hafa farið mjög versnandi frá árinu 1995.

Hæstv. forsætisráðherra virðist ekki kannast við gagnrýni á óstöðugleikann í umhverfi ungs fólks, ungra fjölskyldna. 10 millj. kr. íbúð hefur hækkað í 14 millj. kr. milli ára. Hvað segir hæstv. forsætisráðherra við ungt par sem hefur verið að safna sér upp í fyrstu íbúð? Hvaða gagn er að því að safna af harðfylgi 3 millj. kr. þegar íbúðin hefur hækkað um 4 millj. kr.? Þeir sem eru búnir að kaupa, gera greiðsluáætlun miðað við greiðslugetu og hafa tekið jafnvel 90% lán. Hver verður greiðslubyrðin, þó að vextir séu ekki meiri en 4–5%, ef verðbólgan rokkar á milli 5–8%? Við erum þá að tala um 10% vaxta- og verðbólgugreiðslur.

Hvað með vaxtabætur sem fólk veit ekki hvort það má treysta á vegna umræðunnar um skerðingu eða afnám þeirra? Ætlar ríkisstjórnin að viðhalda vaxtabótum? Veit ráðherrann að fyrst árið 2007 munu barnabæturnar, sem ríkisstjórnin hefur talað um, ná raungildi miðað við árið 1995 þegar Framsóknarflokkurinn komst í ríkisstjórn? Ég vil bara nefna að í dag hefur í umræðunni verið ítrekað verið bent á, varðandi kjör aldraðra og öryrkja, að ætlunin er að draga úr stuðningi við þá verst settu í öðrum hópnum til koma örlítið til móts við þá verst settu í hinum hópnum. Hvernig getur hæstv. forsætisráðherra komið hingað og sagt að stjórnarandstaðan horfi eingöngu til tekna?