132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[16:02]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er stundum þannig að menn sjá vandamál í öllu. Hv. þingmaður sér það sem mikið vandamál að eignir hafi verið að hækka í verði. Jú, auðvitað getur það verið vandamál fyrir þá sem ekki hafa keypt eign og hafa verið að safna fyrir íbúð. En er það ekki ljóst að lánakjörin núna eru miðuð við að auðvelda ungu fólki að kaupa sér íbúðarhúsnæði og koma sér þaki yfir höfuðið? Þar er orðið allt annað umhverfi en áður var.

Ég get tekið undir það að eftir því sem húsnæðið verður dýrara þeim mun erfiðara verður að kaupa það. En á sama tíma stórhækka eignir þeirra sem hafa keypt sér íbúðarhúsnæði í verði. Það er þannig í lífinu, hv. þingmaður, að það er alltaf einhver mál að glíma við. En þessi þróun er fyrst og fremst jákvæð.

Síðan er farið út í að reikna út eitthvað sem heitir raungildi barnabóta. Ég heyri að samfylkingarmenn eru miklir sérfræðingar í að miða þetta við verðlag, laun og alls konar vísitölur. Aðalatriðið er það að þessar bætur stórhækka á næsta ári og munu koma fólki til góða með sama hætti og skattar eru að lækka. En á sama tíma fær ríkið meiri tekjur vegna vaxandi umsvifa og tekjuöflunar í þjóðfélaginu. Þetta eru staðreyndir málsins.