132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Bensínstyrkur öryrkja.

[15:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Auðvitað er þessi niðurskurður í fjárlagafrumvarpinu á bensínstyrk til hreyfihamlaðra forkastanlegur og í hróplegu ósamræmi við góðærisröflið í stjórnarliðinu svo að maður tali ekki um jólagjafirnar til hátekjufólks, að skerða þurfi bensínstyrk til hreyfihamlaðra á sama tíma og menn telja sig geta gefið hátekjufólkinu í landinu sérstaka skattalækkun í jólagjöf með því að fella niður leifarnar af hátekjuskattinum upp á 2%.

Hitt verð ég að segja að afar sérkennilegt var að heyra fréttirnar af landsfundi Sjálfstæðisflokksins um að Sjálfstæðisflokkurinn, með fjármálaráðherra í broddi fylkingar, afneitaði fjárlagafrumvarpinu. Ég minnist þess ekki áður að hafa heyrt stjórnarflokk með fjármálaráðherrann í broddi fylkingar vísa jafnalfarið ábyrgðinni af tilteknum hluta innihalds stjórnarfrumvarps yfir á fagráðherra og Framsóknarflokkinn. Einhvern tíma hefði verið talað um rýtingsstungu í bakið. Er fjárlagafrumvarpið kannski ekki stjórnarfrumvarp? Er það bara þannig að hver ráðherra ber ábyrgð á sínum kafla? Var þetta ekki tekið fyrir í ríkisstjórn og samþykkt til framlagningar? Var þetta ekki blessað af þingflokkum beggja stjórnarflokkanna? Ég hélt það.

Ég held að þá sé tímabært að ríkisstjórnin og ráðherrar upplýsi hvernig unnið er að þessu á stjórnarheimilinu. Og það verð ég að segja að ekki öfunda ég hæstv. fjármálaráðherra af því að koma saman fjárlagafrumvarpi næst ef þetta er það sem í vændum er, að allt það sem til óvinsælda er fallið í frumvarpinu skuli vera á kostnað og reikning viðkomandi fagráðherra. Halda menn að fjárlagafrumvarpið sé eitthvað öðruvísi stjórnarfrumvarp þó að þar sé notuð einhver rammaaðferð? Bera stjórnarflokkarnir ekki sömu pólitísku ábyrgð á stjórnarfrumvörpum eftir því hvaða aðferð er notuð við að búa frumvörpin til? Hvers konar endemis þvæla er þetta?

Auðvitað er það þannig að stjórnarflokkarnir báðir og hver einasti þingmaður sem styður þessa ríkisstjórn og studdi framlagningu fjárlagafrumvarpsins bera hina sömu pólitísku ábyrgð á þessari óhæfu. Það var satt best að segja lágkúrulegt að svona lítið skyldi leggjast fyrir þennan mikla flokk á landsfundi sínum að reka þarna rýtinginn í bakið á hæstv. heilbrigðisráðherra. Er ég þó ekki að afsaka það að hæstv. heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson skuli láta hafa sig út í þetta.