132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Bensínstyrkur öryrkja.

[15:21]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það hefur ýmislegt alveg fráleitt komið fram í þessari umræðu og er ég eiginlega mest hissa á fyrrverandi ráðherrum sem eiga að þekkja til verka í þessum efnum, hvernig þeir tala hér.

Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, sem mætti nú eiginlega vera augljóst, að það er ein ríkisstjórn í landinu og hún leggur fram fjárlagafrumvarpið og hún stendur auðvitað á bak við það.

Hæstv. forseti. Talað er um að ríkisstjórnin sé svo yfirþyrmandi að aldrei megi gera neinar breytingar vegna hennar og verið sé að binda hendur þingsins. Það er vart liðin vika frá því að fjárlagafrumvarpið var í 1. umr. að upp er komin umræða undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins þar sem gerð er krafa um að því sé svarað hver verði niðurstaða fjárlagafrumvarpsins þegar fjárlagafrumvarpið hefur gengið í gegnum nefndarstarf í þinginu og a.m.k. tvær umræður til viðbótar. Gerð er krafa um að ríkisstjórnin eða hæstv. ráðherrar svari þingmönnum þessu.

Eru hv. þingmenn ekki að gera lítið úr sjálfum sér og lítið úr starfi sínu þegar þeir tala svona? Man einhver eftir því að fjárlagafrumvarp hafi farið óbreytt í gegnum þingið? Nei, ég held að enginn muni eftir því að fjárlagafrumvarp hafi farið óbreytt í gegnum þingið og sennilegast eru það fæst frumvörp sem hafa farið óbreytt í gegnum þingið. Ég er hins vegar ekki að tala fyrir því að við minnkum aðhaldið í frumvarpinu, við þurfum að gæta þess. Ég er ekki að segja að ekki megi gera á því neinar breytingar, ég er hins vegar ekki að tiltaka þær breytingar. En númer eitt er, og það er aðalatriðið, að við gætum aðhalds í frumvarpinu.