132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[16:02]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegur forseti. Ég fór aðeins yfir það í andsvörum um þessa tillögu og benti á hvernig þetta gengi hvað gegn öðru. En í tillögunum er nú gengið lengra, hér er komið með sex tillögur um hvað eigi að gera til að forða þessari vá og eins og ég hef lesið hér upp er fyrsta tillagan yfirlýsing um að ekki verði farið í frekari álverksmiðjur.

Ég veit ekki hver á að standa að því, ég veit ekki betur en orkuöflunin sem á sér stað á Reykjavíkursvæðinu í kringum Norðurál sé á vegum R-listans í Reykjavík, ég veit ekki betur en hann standi að þeim framkvæmdum og Reykjavíkurborg eigi Orkuveitu Reykjavíkur þannig að ég skil ekki hvað Alþingi hefur með það að gera.

Það er líka ástæða til að átta sig á því að í viðskiptahallanum, sem er ætlaður 120–140 milljarðar í ár og annað eins næsta ár, er reiknað með 36 milljörðum þar af vegna framkvæmda við orkufyrirtækin og álbræðslurnar, 36 milljarðar af 140, þannig að eitthvað fleira þarf að koma þarna til.

Í þriðja lagi er gerð áskorun til Fjármálaeftirlitsins. Sú áskorun hlýtur alltaf að vera uppi til Fjármálaeftirlitsins, það þarf alltaf að skoða stöðu bankanna.

Í fjórða lagi er beint til Seðlabankans, um aukna bindiskyldu. Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að það kann að hafa verið rangt fyrir nokkrum árum að minnka hana. Í dag liggur alveg fyrir að þó að við aukum bindiskylduna þá geti hinir stóru bankar, þeir þrír sem eru með mikla starfsemi erlendis, auðveldlega hlaupist undan því og enginn vandi fyrir þá að gera það. Það eru aðeins litlir sparisjóðir úti á landi, sem eru að reyna að hjálpa til við atvinnulífið þar, sem mundu lenda í þessari bindiskyldu.

Í fimmta lagi er komið inn á þennan vafasama mæli sem hafður er til grundvallar verðbólgunni og við höfum gagnrýnt hér mjög, ég gerði það fyrir ári síðan. Hvað er verið að mæla þegar eignaverðbólgan er svona mikil? En það er nú búið að mæla eignirnar upp í verðbólgunni og við sitjum uppi með það. Það eru margir sem trúa því, og ég ætla bara að vona að það sé rétt, að við séum komin að endimörkum þeirrar þenslu. Íbúðaverð hefur verið kyrrt í eina tvo mánuði og það eru mjög margir sem spá því að við fáum það aðeins niður. Að fasteignaverð fari niður er eiginlega grundvallarnauðsyn þess að við getum komist út úr þeim vanda sem við sannarlega erum í í dag. Við þurfum að stuðla að því ef við mögulega getum. Þá er rétt að hafa það inni í vísitölunni, úr því að við erum búin að mæla þetta á leiðinni upp skulum við ekki sleppa því að mæla það á leiðinni niður.

Í sjötta lagi er talað um að tryggja aðhald í ríkisútgjöldum. Það er allt rétt og satt og ef stjórn og stjórnarandstaða, ef Alþingi í heild, virðulegi forseti, ber gæfu til þess væri það ábyggilega mjög til bóta fyrir okkur að auka aðhald í ríkisfjármálum. Það er ekki nógu mikið á Íslandi, ég hef margsinnis farið í gegnum það á umliðnum árum, þar getum við gert miklu betur. En það dugir ekki eitt sér að vera með sýndaryfirlýsingu þar um heldur skulum við þá standa frammi fyrir því hvað um er að ræða.

Ég fór í gegnum útgjöld ríkisins hér fyrir tíu dögum og sýndi mönnum fram á í hvað þau skiptist þannig að menn eiga að kunna það. Við erum með 13 milljarða í fjárfestingar, við erum með 5 milljarða í viðhald o.s.frv. Hitt er rekstur, tilfærslur og laun. Það er auðveldara um að tala en í að komast eins og ég hef áður bent á. Raunhæfast í því sambandi er að standa gegn útgjöldunum áður en þau verða til.

Í sjöunda lagi, virðulegi forseti, er talað um æskilegt samráð aðila vinnumarkaðarins. Það er ástæða til að taka undir það, það er alltaf af hinu góða. Ég tel að það hafi verið ákveðin handleiðsla og samráð sem varð okkur til hjálpar árið 2001 þegar við fengum hrun í gengið. Þá hjálpuðumst við að við að ná því aftur upp í jafnvægi og það var af hinu góða. Ég held að menn eigi alltaf að vera opnir fyrir slíku samstarfi og það eigi alltaf að vera til staðar.

Það er hins vegar ástæða til þess að fara í gegnum þetta vandamál. Hvert er þetta vandamál? Jú, vandamálið er gríðarleg aukning á peningum í umferð. Það má rekja það til ýmissa mistaka. Ég er alveg sannfærður um það og ég held að enginn þræti fyrir það í dag að hækkun á lánum Íbúðalánasjóðs voru mistök. Við gerðum rangt í því, við fórum að egna óbilgjarnan, við fórum að egna bankana, fá þá í samkeppni við okkur, það var slæmt mál. Ef við eigum þess nokkurn kost, virðulegi forseti, þá eigum við í dag að stefna að því að draga úr þeim lánum, reyna að ná samstöðu um það á bankamarkaði. Ég er viss um og hef fyrir mér dálitla vissu um að viðskiptabankarnir mundu taka því mjög vel. Það er mikil þörf á því að draga úr þessu peningaflæði inn í fasteignirnar, ef nokkur möguleiki er á því, vegna þess að lækkun fasteignaverðs er það sem gæti hjálpað okkur við handleiðslu krónunnar í leit að jafnvægi.

Ég hef gagnrýnt þá stefnu Seðlabankans núna í meira en ár að við skyldum hækka svo stýrivextina og efast mjög um hversu raunhæfar aðgerðir það væru því það hefði engin áhrif á langtímavexti á Íslandi en hins vegar bein áhrif á gengið. Það hefði einfaldlega þau áhrif að við værum að auka vaxtamuninn milli Íslands og útlanda þannig að við værum að þrýsta meira og meira á að peningar streymdu inn í landið. Hver hefur nú orðið raunin?

Ég veit alveg hvað Seðlabankinn er að hugsa. Hann er mjög hræddur við að hætta á þeirri vegferð sem hann er á, því þegar gengið sígur þá verður víxlverkun sem væri erfitt að komast út úr þegar svona mikil þensla er í þjóðfélaginu. Þetta kann að vera alveg rétt hjá þeim. En ég fullyrði og hef fullyrt það áður að við getum aldrei haldið íslenskum útflutningsgreinum með genginu einhvers staðar milli 100 og 105, það endar bara með skelfingu fyrir okkur, fjöldauppsögnum og atvinnuleysi sem íslenskt þjóðfélag getur ekki borið. Þess vegna er það rétt stefna og óumflýjanleg að Seðlabankinn hætti á þessari vegferð sinni, hætti að hækka vextina. Við vitum að þá mun gengið síga, það er lífsnauðsynlegt að það sígi, við verðum að hjálpa því. Seðlabankinn þarf að gefa út markmið sín um hvernig hann ætlar að ná vöxtunum niður og hvenær hann ætlar að hafa lokið því, hvaða jafnstöðu hann ætlar að reyna að ná gagnvart evrunni, vera þar 2–3% yfir, segja frá því þannig að íslenskt viðskiptalíf geti áttað sig á því þannig að ekki grípi um sig hræðsla. Það verður þá sig á genginu, við þurfum að ná því a.m.k. í 120, eitthvað svoleiðis. Þá mun atvinnulífið blómgast á ný, þá munum við ná stöðu.

Það verður hins vegar lífskjararýrnun hjá flestum í þjóðfélaginu, öllum öðrum en öryrkjum og ellilífeyrisþegum. Við gerum ráð fyrir 2,7% kaupmáttaraukningu í fjárlagafrumvarpinu, ég mundi spá því að það gæti orðið 2–3% rýrnun kjaranna. Við eigum að segja það við fólk og við eigum að ræða það við verkalýðshreyfinguna, við eigum að ræða það við aðila vinnumarkaðarins. Við eigum að átta okkur á því að þetta er óumflýjanlegt og reyna að finna mögulegar leiðir til þess að bæta um þar sem sárast kann að vera hjá fólki, þar sem mestur sársauki kann að vera. Ég hef áður bent á að öryrkjar eru þó tryggðir og ellilífeyririnn er líka tryggður. Hins vegar þurfum við kannski að skoða fleiri hópa vandlega í því sambandi.

Aðalatriðið er þetta: Lífskjararýrnunin er óumflýjanleg. Ef við getum leitt gengið niður og veitt þá handleiðslu í því, þá þarf það ekki að vera neitt mikið áfall fyrir þjóðfélagið. Það verður rýrnun á kaupmætti kannski tvö, þrjú, fjögur missiri. Síðan er íslenskt efnahagslíf mjög sterkt, það mun taka við aftur og við munum aftur geta haldið þá miklu vegferð sem við erum á, að auka kaupmátt og kaupgetu fólks. Þetta er samt alda sem við þurfum að fara í gegnum og það borgar sig fyrir alla aðila að tala um það, horfast í augu við það og viðurkenna það.

Ástæðan er einföld. Við höfum farið óvarlega. Það getur enginn maður komið hér og sagt að hann beri ekki ábyrgð á því. Auðvitað ber ríkisstjórnin ábyrgð á því, auðvitað bera aðilar vinnumarkaðarins ábyrgð á því. Við höfum hækkað hér laun meira en aðrir. Alla forustu í þessu lauslæti hafa íslenskir bankar haft. Þeir hafa verið mjög kærulausir, sérstaklega í launamálum og útlánamálum. Þeir verða að átta sig á stöðu sinni í nýfengnu frelsi, að þeir bera ábyrgð í samfélaginu og geta ekki verið með — jæja, virðulegi forseti — þá hegðun sem þeir hafa sýnt fram að þessu. Þeir bera mikla ábyrgð í þessu opna, frjálsa samfélagi. Þeir verða að gæta sín og þau mistök sem hafa verið gerð á undanförnum missirum, menn verða að horfa til þeirra og gæta þess að láta þau ekki endurtaka sig. Það skiptir okkur öllu máli, vegna þess að Ísland hefur þessa glæsilegu stöðu, að geta haldið áfram sem frjáls og sjálfstæð þjóð, öllum öðrum óháð, að efla atvinnulíf sitt meira og betur en aðrir. Við eigum ótæmandi möguleika í þessu landi. Við þurfum bara alltaf að gæta okkar að vera ekki svona óskaplega — ja, hvað eigum við að segja, virðulegi forseti — vera ekki með þennan óhemjuskap. Þetta er óhemjuskapur sem við Íslendingar eigum að geta komist út úr og vanið okkur af. Reynslan er ótvíræð, það er kaupmátturinn sjálfur sem skiptir máli fyrir fólkið, ekki hvað þú hækkar kaupið mikið. Þetta voru menn búnir að læra, þess vegna tókst okkur að koma okkur út úr þessari vitleysu með þjóðarsáttarsamningunum. Við megum ekki falla í sömu gryfjuna aftur. Við verðum að vera þolinmóð. Tvö til þrjú prósent raunhækkun launa er meiri launahækkun en nokkur önnur þjóð gerir kröfur til og veit að er hægt að gera. Þannig siglum við þessu þjóðfélagi hratt og örugglega fram úr öðrum þjóðfélögum en verðum að passa okkur að ofreisa okkur ekki eins og við höfum sennilega gert. Fara varlega, það skiptir máli.

Auðvitað eigum við að hafa samráð og það kann að vera allra góðra gjalda vert hjá þeim tillögumönnum sem leggja þessa þingsályktun fram. En ég gagnrýni enn og aftur þá óhreinskilni sem þeir hafa alltaf við, að vilja ekkert segja nema það sem þeir halda að aðrir vilji heyra. Þeir búa ekki yfir neinum töfralausnum sem geta bætt hag framleiðslunnar án þess að kaupmáttur Íslendinga rýrni um einhvern tíma.