132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[16:14]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er út af fyrir sig virðingarvert hjá hv. þingmanni Einari Oddi Kristjánssyni að koma hér einn stjórnarliða og ræða þessi mál. Ég saknaði viðveru t.d. hæstv. sjávarútvegsráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem hefðu alveg mátt gera sér erindi í þingsalinn í dag til þess að ræða stöðuna í útflutnings- og samkeppnisgreinum í landinu.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að bankarnir bera heilmikla ábyrgð á þeirri gríðarlegu útlánaþenslu sem hér hefur verið. En það þýðir náttúrlega ekki að ræða þetta eins og ríkisstjórnin hafi hvergi komið nálægt neinu. (EOK: Ég gerði það ekki.) Nei, en það þýðir heldur ekki að gera lítið úr þætti stóriðjustefnunnar í þessu, bæði hvað varðar hin beinu efnislegu áhrif og væntingaáhrifin sem auðvitað voru gíruð upp með þessum stóriðjuframkvæmdum og eru áfram svo lengi sem það er óbreytt stjórnarstefna að troða öllum þeim stóriðjuframkvæmdum og fjárfestingum sem mögulega er hægt að landa hér með opinberum tilstyrk inn í hagkerfið, en það er stefna iðnaðar- og viðskiptaráðherra og virðist vera stefna allrar ríkisstjórnarinnar.

Það er auðvitað ekki þannig að þetta séu bara einhverjar sjálfstæðar ákvarðanir markaðsaðila úti í bæ. Ef eitthvað eru opinberar framkvæmdir þá eru það nú t.d. bygging Kárahnjúkavirkjunar og framkvæmdirnar eystra þar sem opinbert fyrirtæki reisir virkjunina, þar sem opinbert fé er notað til að reka áróður fyrir því að erlendir aðilar komi hér og fjárfesti, og rekin er markaðsskrifstofa fyrir tugi milljóna á ári hverju af opinberu fé. Og jafnvel þó að í einhverjum tilvikum séu aðrir aðilar en Landsvirkjun að framleiða rafmagnið, eins og í stækkun á Grundartanga, þá eru það leyfisskyldar framkvæmdir. Það eru sett sérlög um þær stóriðjuframkvæmdir eins og aðrar, sérskattaákvæði o.s.frv.

Varðandi það að í framsetningu og málflutningi okkar sé fólginn einhver tvískinnungur eða hræsni þá hafna ég því. Við gerum okkur vel grein fyrir því að ef gengi krónunnar lækkar, sem auðvitað verður að gerast vegna þess að það er langt yfir öllum jafnvægismörkum, þá dregur eitthvað úr kaupmætti almennings gagnvart innfluttri vöru. En það mun væntanlega líka draga úr innflutningnum og draga úr viðskiptahallanum. Það eru miklu meiri hagsmunir í húfi að verja stöðugleika, að missa ekki upp verðbólgu og auðvitað skiptir (Forseti hringir.) það máli að halda kyrrð á vinnumarkaði og verja kaupmátt umsaminna launa eins og kostur er. Það er út á það sem þessi tillaga gengur.