132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

6. mál
[17:08]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Við ræðum í þriðja sinn á stuttum tíma afkomu og aðbúnað aldraðra og öryrkja eða málefni því tengt, enda ekki vanþörf á. Hv. þm. Ögmundur Jónasson stóð fyrir umræðu í síðustu viku um aðbúnað og kjör aldraðra. Sömuleiðis var rædd tillaga Samfylkingar um afkomutryggingu aldraðra. Hér er á ferðinni þingmál sem Frjálslyndi flokkurinn hefur flutt á undanförnum þingum sem lýtur að sérstökum aðgerðum til að bæta stöðu eftirlaunafólks sem lítilla eða engra tekna nýtur úr lífeyrissjóðum og draga úr þeirri skerðingu sem tekjur frá lífeyrissjóðum valda á greiðslum úr almannatryggingakerfinu, þar til komið er upp fyrir viss mörk.

Ég tel augljóst að aðgerðir af þessu tagi séu einn stærsti liðurinn í að jafna kjör þessara hópa í landinu. Enn sem komið er og í a.m.k. 15–25 ár til viðbótar munu mismunandi greiðslur úr lífeyrissjóðum valda verulegum afkomumun hjá þeim sem fara á eftirlaun eða fá nú þegar greiðslur úr lífeyrissjóðum eða almannatryggingakerfinu sem eftirlaunaþegar. Þetta stafar af því að þrátt fyrir okkar ágæta lífeyrissjóðakerfi og uppbyggingu þess, sem er vel að merkja mikið gæfuspor og ég veit að við erum öll sammála um það sem hér erum inni, þá vitum við að lífeyrisréttur þeirra sem eru nú fara á eftirlaun er ákaflega mismunandi. Í sumum tilvikum er hann hverfandi lítill. Það verða áfram hópar eins og öryrkjar svo sem hér var réttilega nefnt, sem miðað við núverandi ástand mynda alls ekki neinn lífeyri og koma til með að þurfa að byggja á öflugu almannatryggingakerfi áfram hvað varðar afkomu sína, hafi þeir ekki aðrar tekjur.

Ef við veltum því aðeins fyrir okkur hver er stærsti hópurinn sem mundi njóta verulega góðs af þingmáli eða aðgerðum af þessu tagi þá held ég að svarið sé ósköp einfalt. Það eru konur. Ef við skoðum upphæðir úr lífeyrissjóðum, eins og þær eru greiddar um þessar mundir, þá fá fjölmennar kvennastéttir langlægstu greiðslurnar. Það er satt best að segja ótrúlega algengt að greiðslur til kvennastétta séu enn 10 þús. kr. á mánuði úr lífeyrissjóðum, eða þaðan af minna. Vissulega eru einstakir hópar eins og bændur eða jafnvel sjómenn sem hafa slakan lífeyrisrétt vegna þess að sjóðir þeirra standa illa eða vegna þess hve seint farið var að greiða í þá af öllum tekjum. En það stendur auðvitað til mikilla bóta sem betur fer. Það er þó rétt að hafa í huga að það var í raun ekki fyrr en með breytingunum 1996 eða 1998 sem náðist utan um það mál að fullu, þ.e. að allir fóru að greiða af öllum tekjum og frá því gengið að allir sem á vinnumarkaði eru greiddu inn í lífeyrissjóði. Það er því enn býsna langt í land með að þetta kerfi komist í fullt jafnvægi, verði fulluppbyggt og aftur er rétt að hafa í huga þá hópa sem alls ekki eru inni í kerfinu, þ.e. komast ekki inn í það vegna þess að þeir hafi vegna skertrar starfsorku aldrei verið á vinnumarkaði.

Ég tel mikilvægt að sest verði yfir það í alvöru að ná um þetta viðfangsefni sátt í þjóðfélaginu. Að mínu mati þar sem hundurinn liggur grafinn, þar sem vandinn brennur á gagnvart þeim sem eru ósáttastir við kjör sín af þeim sem nú eru á eftirlaunaaldri eða eru að fara á eftirlaun um þessar mundir. Við höfum næg efni í þjóðfélaginu til að brúa þetta bil. Ef við gerum það ekki verðum við að svara þeirri siðferðilegu spurningu: Finnst okkur sanngjarnt að dæma tiltekna kynslóð, fólkið sem hefur byggt upp landið, sem komið er á eftirlaun eða er í þann veginn að fara á eftirlaun, til mun lakari lífskjara en þeir munu njóta sem hefja töku lífeyris eftir 15– 25 ár þegar kerfið verður betur upp byggt? Það er þá niðurstaðan sem menn verða að horfast í augu við og afleiðing þess ef ekkert verður að gert. Við sjáum á skerðingarhlutföllunum eins og þau eru í dag að á löngu tekjubili, þ.e. vegna tekna sem koma úr lífeyrissjóðum, svo ekki sé talað um ef menn eru að reyna að bæta stöðu sína með utanaðkomandi tekjum, að skerðingarnar eru þannig að menn í raun og veru spóla. Menn bæta nánast ekkert stöðu sína fyrr en komið er upp fyrir 130–150 þús. kr. tekjur og allar skerðingar uppurnar í kerfinu. Við erum í raun að festa þann hóp algerlega til þeirra lífskjara sem þessar skerðingarformúlur bjóða upp á í dag og dæma þá sem fyrir þessu verða, þolendurna, til að sæta mun lakari lífskjörum en auðvitað allt stefnir í að geti orðið þegar lífeyrissjóðakerfið verður að fullu uppbyggt. Þó verður lífeyrisrétturinn þar mjög misjafn, því miður, og áfram þörf fyrir öflugt almannatryggingakerfi.

Má ég líka minna á, frú forseti, að um er að ræða hópa sem gjarnan eiga í hlut þegar talið berst að breytingum í velferðarþjónustunni sem hafa læðst aftan að okkur lymskulega undanfarin ár og stórrýrt kjör þeirra sem þurfa t.d. á lyfjum að halda, sem þurfa að leita sér aðstoðar í heilbrigðiskerfinu og hafa fengið af fullum þunga á sig komugjöld, aukinn lyfjakostnað og skertar endurgreiðslur vegna þjónustu sem þar er veitt. Það er sláandi þegar maður ber saman stöðu okkar Íslendinga að þessu leyti við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum hve mun lakar er búið að þeim hópi, hversu miklu lægri almennar óskertar greiðslur úr tryggingakerfinu eru á Íslandi miðað við aðra staði í kringum okkur. Það að menn skuli fara niður á strípaðan ellilífeyrinn, 22 þús. kr. tæpar eins og það er sett upp í töflunni, er náttúrlega ekki merkilegt framlag frá samfélaginu til fólks sem hefur stritað allt sitt líf, greitt skatta sína og skyldur og byggt upp þetta þjóðfélag, þegar það kemst á eftirlaunaaldur og ætlar að njóta þess sem eftir er af ævinni.

Við höfum efni á því að gera betur en þetta, frú forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til að lýsa stuðningi mínum og okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við þá hugsun sem liggur að baki tillögunni. Þetta er að mörgu leyti skynsamlega útfærð nálgun sem er fullrar skoðunar virði varðandi það að taka á málefnum þessa hóps.