132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

6. mál
[17:51]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var athyglisverð og ágæt ræða hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. Hann talaði um mikilvægi þess að ná nýrri sátt um málefni eldri borgara, að ástæða væri til að taka málið upp og ná nýrri sátt um það í samfélaginu. Nefndi hann sérstaklega atvinnuþátttöku eldra fólks, við mættum ekki fæla það frá vinnu. Því spyr ég hv. þingmann hvort við ættum ekki að skoða sérstaklega atriði sem lúta að skerðingarhlutföllum grunnlífeyris og tekjutryggingar þannig að þau verði rýmkuð til að auka svigrúm og hvetja eldri borgara til atvinnuþátttöku.

Ef miðað væri við að lækka skerðingarhlutfall grunnlífeyris úr 30% í 20% og skerðingarhlutfall tekjutryggingar úr 45% í 30% yrðu útgjöld því samfara um 1,3 milljarðar miðað við lífeyrisgreiðslur eins og þær voru í desember 2004. Sem dæmi um hvernig skerðingarhlutfallið virkar núna, um gífurlega skerðingu á lífeyri ef aldraðir hafa atvinnutekjur, má nefna að við 10 þús. kr. í auknar atvinnutekjur á mánuði hjá hjónum hækka ráðstöfunartekjur þeirra í mörgum tilfellum aðeins um rúmar 1.500 kr. Skerðing og skattar eru þá tæp 85%. Hvatinn til aukins vinnuframlags er því að sjálfsögðu hverfandi. Þvert á móti fælir þetta fólk frá því að sækja vinnu, að drýgja tekjur sínar með þátttöku á vinnumarkaði, fyrir utan mikilvægi þess og gagns af því að njóta starfskrafta þess á vinnumarkaði. Skerðingarhlutfallið, sem er svo hátt, hlýtur að vera eitt af því sem við skoðum fyrst og umfram ýmislegt annað og breyting á því væri kannski ein af þeim breytingum sem mest ástæða væri til að ná nýrri sátt um í málefnum eldri borgara. Þess vegna spyr ég hv. þingmann sérstaklega út í þetta atriði af því að hann ræddi um atvinnuþátttökuna.