132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

6. mál
[17:54]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að tengingarnar í þessu kerfi eru að ýmsu leyti flóknar og það er kannski rétt að fara yfir það í örstuttu máli. Í fyrsta lagi skerða lífeyristekjur einstaklinga allar bætur aðrar en grunnlífeyrinn, 21.900 kr., lífeyrissjóðurinn skerðir þær ekki.

Ef við tökum fjármagnstekjur þá skerða þær allar bætur en það er hins vegar deilt í þær með tveimur áður en skert er þannig að það er helmingur fjármagnstekna sem skerðir bætur.

Ef við hins vegar tökum atvinnutekjur, og þá erum við kannski komin að stöðu þess fólks sem á lítinn og engan rétt neins staðar, þá skerða þær allar bætur, líka grunnlífeyrinn, þannig að eldri borgari sem vinnur úti á vinnumarkaði og á rétt á almannatryggingabótum, hinum samsettu lágmarksbótum almannatrygginga, tapar ekki bara tekjutryggingunni, tekjutryggingaraukanum og heimilisuppbótinni eins og taflan sýnir hér heldur missir hann líka 22 þús. kr. grunnlífeyrinn.

Það væri náttúrlega mjög auðvelt að lagfæra stöðu þeirra sem eru á vinnumarkaðnum og eiga engan lífeyrisrétt með því að setja sams konar reglu varðandi grunnlífeyrinn og er um lífeyristekjur þannig að atvinnutekjur skertu ekki grunnlífeyrinn. Og þá værum við líka að segja að allir Íslendingar, hvað sem þeir hafa í tekjur, fái 22 þús. kr. frá Tryggingastofnun.