132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Láglendisvegir.

9. mál
[18:16]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um láglendisvegi. Tillagan gengur út á það að við setjum okkur þau markmið að aðalvegakerfið hér á landi verði leyst til framtíðar með því að gera jarðgöng þar sem við á. Við leggjum til að málinu verði raðað upp til nokkuð margra ára — við erum að tala um 20 ár — og að þeim jarðgangaverkefnum sem m.a. voru upptalin í skýrslu sem unnin var á árinu 1999 og gefin út í janúar 2000 og hét Jarðgangaáætlun, verði raðað upp í sérstakan forgangsflokk. Það var reyndar gert í þessari ályktun á sínum tíma en hefur ekki verið endurskoðað eins og þó var mælt fyrir um í þessari tillögu.

Í fylgiskjali með þeirri tillögu til þingsályktunar segir, með leyfi forseta:

„Lagt er til að jarðgangaáætlun sé gerð til tíu ára hverju sinni og endurskoðuð á fjögurra ára fresti.“

Við hefðum því átt að endurskoða áætlunina og raða verkefnum upp á nýtt.

Þar segir einnig, með leyfi forseta:

„Líklegt má telja að í þeim áfanga“ — þ.e. að endurraða upp á nýtt — „væru einhver verkefnanna nr. 5–7 af Vestfjörðum og nr. 11–15 af Austfjörðum.“

Svo segir í niðurlagi þessa fylgiskjals með þingsályktunartillögunni.

Verkefnin nr. 5–7 voru: 5. Óshlíð, 6. Ísafjörður – Súðavík, 7. Eyrarfjall í Djúpi. Þetta var á Vestfjörðum.

Verkefnin nr. 11–15 á Austfjörðum voru: 11. Vopnafjörður – Hérað, undir Hellisheiði eystri, 12. Seyðisfjörður – Hérað/Norðfjörður, 13. Norðfjörður – Eskifjörður, 14. Fáskrúðsfjörður – Stöðvarfjörður, 15. Stöðvarfjörður – Breiðdalsvík. Þetta voru tillögur nr. 11–15.

Þessi tillaga var kynnt hér á Alþingi, og þessi skýrsla, og rædd og í henni voru mörkuð þrjú ákveðin verkefni sem ætti að vinna að. Það var Reyðarfjörður – Fáskrúðsfjörður, sem er búið að framkvæma. Það var Siglufjörður – Ólafsfjörður, Héðinsfjarðargöng sem nú er verið að auglýsa eftir áhugasömum verktökum í. Svo var það Arnarfjörður – Dýrafjörður sem átti að vera næsta verkefni eftir Héðinsfjarðargöngum. Þannig var þetta sett upp á sínum tíma.

Tillaga okkar í Frjálslynda flokknum gengur út á það að Alþingi ályktar að Vegagerðinni skuli falið að vinna tillögur sem byggist á því að allar helstu leiðir á þjóðvegi 1, Vestfjörðum og norðausturhorni landsins verði á láglendi, undir 200 m hæð yfir sjó. Einkum verði lagt til grundvallar aukið öryggi og stytting leiða milli suðvesturhornsins og annarra landsvæða, og eins innan landsvæða.

Megináhersla verði lögð á jarðgöng og þverun fjarða við útfærsluna og horft til mesta mögulega sparnaðar miðað við t.d. 50 ára notkun mannvirkja. Reiknaður verði út sparnaður samfara nýju vegakerfi, t.d. við flutning á raforku því sums staðar er hægt að nýta sér það að leggja rafstrengi í gengum jarðgöng í staðinn fyrir að fara með þá yfir fjöllin. Ég nefni t.d. jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Oft hefur komið fyrir að raflínan þar yfir í Dýrafjörð frá Mjólkárvirkjun hafi farið úr sambandi í vondum veðrum. Þar væri hægt að leggja jarðstreng og ná þannig miklu öruggari flutningsleið að vetri til.

Einnig má hugsa sér að sums staðar þar sem jarðgöng yrðu gerð á komandi tímum væri hugsanlegt að nýta þau til þess að flytja heitt vatn ef það er til staðar, stytta vegalengdir milli staða varðandi hitaveitur, ef það kemur upp. Á þetta er bent hér sem hliðaráhrif við það sem hugsanlegt væri að skoða, einkum þegar verið er að tengja saman byggðir með jarðgöngum sem gætu gert þetta mögulegt. Þess vegna er vikið að þessu.

Síðan er vikið að því hver ávinningurinn af hugsanlegri lagfæringu vegakerfisins yrði, t.d. fækkun flugvalla og hafskipahafna. Því er nú verr að lítið er um hafskipaflutninga út á land orðið. Þeir hafa að meginstofni lagst niður. En við vitum að þegar vegalengdir frá ákveðnum stöðum til Reykjavíkur, þ.e. akstursvegalengdir, eru komnar niður fyrir um það bil þrjár klukkustundir þá fer flugið að láta á sjá. Það er bara reynslan sem segir okkur þetta. Við sáum flugið leggjast af á Snæfellsnesi bæði til Rifs og Stykkishólms. Við sáum það leggjast af á Blönduósi eftir að vegakerfið lagaðist. Við sáum það leggjast af til Hólmavíkur. Og þegar búið verður að lagfæra Þverárfjall ætli flugið eigi þá ekki mjög undir högg að sækja á Sauðárkrók? Mér kæmi það ekki á óvart. Við sjáum því að ákveðið samspil er á milli akstursvegalengda til höfuðborgarsvæðisins og þess hvort flug haldi velli á höfuðborgarsvæðið og gætum við tengt þessa umræðu við flugvöllinn og staðsetningu hans. En ég ætla að sleppa því í þessari ræðu og umfjöllun um þetta mál.

Við höfum í þessari tillögu talið upp, hæstv. forseti, þó nokkra fjallvegi þar sem kæmi til greina að gera jarðgöng. Í fyrsta lagi nefnum við Arnarfjörð – Dýrafjörð og eins og ég sagði áðan þá liggur fyrir að þau göng eiga að vera næst á dagskránni á eftir Héðinsfjarðargöngum samkvæmt fyrri ákvörðun. Þess vegna má segja að vonandi liggi sú ákvörðun fyrir þó framkvæmdir séu ekki hafnar og ekki sé farið að huga að útboðum. Búið var þó að rannsaka nokkuð berglög og menn hafa nokkurn veginn áttað sig á því hvar göngin mundu liggja.

En það er nú svo með göng úr Arnarfirði yfir í Dýrafjörð að þau leysa ekki vandann. Eftir stendur Dynjandisheiði og menn verða þá að gera annaðhvort að finna vegstæði eða lagfæra vegstæðið á Dynjandisheiði þannig að það verði ökufært eða, sem auðvitað væri betra, að finna áframhaldandi leið með jarðgöngum til að tengja byggðirnar saman og tengja saman vegakerfið. Þess vegna er Dynjandisheiði sett á þennan lista. Vegagerðin heldur því hins vegar fram að vel megi leggja akfæran veg yfir Dynjandisheiði og ætla ég ekkert að hafna því vegna þess að það hagar einfaldlega þannig til á Dynjandisheiði að mun snjóléttara er á sunnanverðri heiðinni en að norðanverðu. Uppkeyrslan á Dynjandisheiði að norðanverðu í dag er auðvitað þannig að ef eitthvað snjóar þá er hún lokuð.

Sumt af því sem talið er upp í þessari tillögu hefur þegar verið leyst. Við getum nefnt Óshlíð. Búið er að taka ákvörðun um að lagfæra veginn um Óshlíð þó um það séu deilur heima í héraði enn þá hvaða leið eigi þar að fara. Sumir vilja fara 1.200 metra jarðgöng í Óshlíðinni sjálfri. Aðrir vilja fara inn í Vestfjarðagöngin svokölluðu, þríarma göngin milli Ísafjarðar, Flateyrar og Suðureyrar. Það er kannski ekki alveg sátt um það. Alla vega liggur ákvörðun ríkisstjórnarinnar — eða ég skil það svo að ríkisstjórnin sé ákveðin í því að skoða alla vega kostinn um Óshlíð. Menn eiga auðvitað eftir að meta þar stöðuna og hvaða möguleikar eru til þess.

Ísafjörður – Súðavík, það er annar vegartálmi á Vestfjörðum sem nauðsynlegt er að horfa á til framtíðar hvernig eigi að leysa. Við höldum að það verði best gert í framtíðinni með því að búa til jarðgöng á milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar.

Eyrarfjall í Djúpi nefnum við hér. Eins og ég sagði áðan þá er þegar búið að taka ákvörðun um að fara með veginn yfir Mjóafjörð, yfir Hrútey, þannig að af sjálfu leiðir ef menn fara þá leið að þá dettur Eyrarfjallið út. Það liggur algjörlega fyrir þó að það verði kannski opið sem sumarvegur. En þjóðvegurinn mundi þá liggja yfir Mjóafjörð, yfir Skálavíkurháls og síðan um Vatnsfjörð og yfir í Reykjafjörð og þannig tengjast þjóðvegakerfi landsins. Þegar því verki lýkur þá er auðvitað kominn vegur með bundnu slitlagi frá Ísafirði og inn á vegina um Steingrímsfjarðarheiði.

Tröllatunguheiði. Það liggur einnig fyrir að menn hafa tekið nokkra ákvörðun um að leggja veg yfir heiðina úr Arnkötludal og yfir í Gautsdal þannig að þar verður ekki um jarðgöng að ræða ef menn fara þá leið.

Siglufjörður – Ólafsfjörður. Ég nefndi áðan að það er þegar komið á framkvæmdastig.

Öxnadalsheiði. Það er spurningarmerki hvort fara eigi þar eða einhvers staðar annars staðar úr Skagafirði sem hagkvæmari kostur telst. Ég tel að menn þurfi bara að athuga virkilega vel hvað teljist besti kosturinn á þeirri leið.

Vaðlaheiðin er hér nefnd. Menn hafa talað þar jafnvel um einkaframkvæmd en það er alveg ljóst að Víkurskarðið er vegartálmi, sérstaklega þegar veður er erfitt.

Vopnafjörður – Hérað. Að mínu viti er mjög áríðandi að þar séu gerð göng og vegalengdir frá Vopnafirði til Héraðs styttar með varanlegri lausn. Ég tel best að gera það með göngum, hvort sem farið yrði undir Hellisheiði eystri eða annars staðar á milli Héraðs og Vopnafjarðar.

Síðan eru talin upp þau göng sem nefnd hafa verið á Austfjörðum, Seyðisfjörður – Hérað/Norðfjörður og Norðfjörður – Eskifjörður. Þar eru að vísu göng á milli en þau standa mjög hátt í landinu og eru einbreið og engan veginn samgöngumáti sem dugar til framtíðar.

Svo eru það Fáskrúðsfjörður – Stöðvarfjörður, Stöðvarfjörður – Breiðdalsvík, Skriðdalur – Berufjörður, þ.e. Öxi. Við veltum þessu upp hér.

Undir Berufjörð var ein af hugmyndunum í jarðgangaáætlun á sínum tíma. Svo eru það Reynisfjall í Mýrdal og Hellisheiði er hér nefnd. En þar er hins vegar verið að gera verulega bragarbót á þjóðveginum og engar líkur eru til þess að menn leggi í þann kostnað og ætli svo að gera jarðgöng stuttu á eftir. Ég sé því ekki fyrir mér að Hellisheiði eigi lengur heima á þessum lista miðað við þá forgangsröð sem menn hafa farið í.

Auðvitað hefur margt fallið af þessum lista. Einu sinni var áætlað um að gera jarðgöng yfir í Kolgrafarfjörð. Það er fallið út eftir að Vatnaheiðin var gerð og þverun vegar yfir Kolgrafarfjörð.

Við teljum að með því að vinna þetta skipulega, fara skipulega í þetta verk að skoða jarðgangakosti sem æskilegir teljast og hagkvæmir þá munum við standa eftir með — ja, hvað eigum við að segja — 15 jarðgöng sem gætu hugsanlega, miðað við ákvarðanirnar í dag eins og þær liggja fyrir, verið samtals um 70 km. Við teljum að til 20 ára megi búa til áætlun um það hvernig að þessu sé best að standa. Ef við gerum það verðum við að merkja úr vegafé um það bil 1,5 milljarða á ári í jarðgangalausnir. Við erum þá að horfa kannski til 20–25 ára, þ.e. að þá verði þeim endanlega lokið. Ef til vill kemur svo fram annað mat á þeim tíma.

En ég tel nauðsynlegt að fara að ræða hvernig við ætlum að haga þessum málum í framtíðinni. Ég tel mjög bagalegt að líða skuli mörg ár á milli svona framkvæmda eins og hefur gerst eftir að við lukum Vestfjarða- og Hvalfjarðargöngum og fórum síðan í Austfjarðagöngin. Það liðu mörg ár á milli. (Gripið fram í: Almannaskarð.) Almannaskarð, já. Ég gleymdi að nefna það. Það var reyndar aldrei inni á áætlun. Því var kippt svona inn svipað eins og þeir gera með Óshlíðina núna. En allt gott um það. Þetta held ég að við eigum að gera í hv. Alþingi og skipuleggja þessi mál af skynsemi. Um það þarf ekki lengur að deila hvað mikið umferðaröryggi hefur fylgt þessum framkvæmdum, t.d. Hvalfjarðargöngum og Vestfjarðagöngum. Við eigum að setja þetta í forgang.