132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Láglendisvegir.

9. mál
[18:31]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er athyglisverð tillaga og fróðlegt að sjá jarðgangahugmyndir og fleira tekið saman í eina stutta og hnitmiðaða tillögu.

Ég vil spyrja hv. þingmann og 1. flutningsmann tillögunnar, Guðjón Arnar Kristjánsson, — en að sjálfsögðu er það lagt til í tillögunni að Vegagerðinni verði falið að reikna út kostnað og annað við einstakar framkvæmdir og framkvæmdaheildina alla — hvort hann hefði svona til hliðsjónar látið slá á annars vegar kostnað við jarðgangagerðina og hins vegar hugsanlega hagkvæmni af henni og því að færa þessa vegi niður á láglendið. Því það er hægt að líta þannig á að slíkar fjárfestingar, slík útgjöld til vega og samgöngumála skili sér með mjög margvíslegum hætti beint og óbeint inn í þjóðarbúið sem hreinar fjárfestingar í grunngerð samfélagsins og kannski þeirri mikilvægustu þar sem það er oft spurning um líf og dauða hvernig fólk kemst um vegina við misjöfn veðurskilyrði. Og einnig líf og dauða fyrir einstök byggðarlög þar sem samgöngur innan svæða og milli svæða skipta öllu í nútímasamfélagi, t.d. hvort einhver möguleiki sé að reisa við byggð úti á landi þar sem hefur hallað undan fæti kannski mörg undanfarin ár út af því að kvótinn hefur verið seldur burtu úr byggðinni eða af öðrum orsökum en þá skipta fjárfestingar í þessari grunngjörð öllu máli.

Því vildi ég spyrja hv. þingmann, þó að hann hafi ekki lagt kostnaðarútreikninga fram sem fylgiskjal hvort hann hafi kannski látið slá á það eða hafi einhverja hugmynd um annars vegar kostnað og hins vegar hagkvæmnina á móti fyrir samfélagið.