132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Láglendisvegir.

9. mál
[18:45]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með þá tillögu sem hér er komin fram. Tillagan væri í raun óþörf í þeirri mynd sem hún liggur fyrir ef staðið hefði verið við samþykkta jarðgangaáætlun, eins og fram kom í máli hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar. Þar er gert ráð fyrir endurskoðun á fjögurra ára fresti. Eins og fram kom hefur sú endurskoðun ekki farið fram, sem er mjög miður. Það hefur leitt til þess að á síðustu árum hafa verið teknar skyndiákvarðanir í jarðgangagerð. Upp er komin einhvers konar tilviljanakennd röð á jarðgöngum. Það ætti ekki að eiga sér stað. Við höfum nokkur dæmi um slíkt á síðustu árum og nægir að nefna veginn um Almannaskarð. Síðasta dæmið er áætlanir um jarðgöng frá Bolungarvík. Báðar tillögurnar, þ.e. jarðgöngin undir Almannaskarð og áætlun um jarðgöng frá Bolungarvík, eru til komnar vegna slysa og ákveðinna aðstæðna.

Skoðanir eru skiptar um hvar göng frá Bolungarvík skuli liggja og afar slæmt að sá tími sem hefur gefist til að skoða mismunandi leiðir og undirbúa jarðgangagerð hafi ekki verið nýttur betur. Það hefur ekki verið gert. Þar af leiðandi er kominn upp ágreiningur milli íbúa á Bolungarvík, svo að ég taki dæmi. Hluti þeirra, m.a. minni hlutinn í bæjarstjórn Bolungarvíkur, vill að farið verði með göng úr Bolungarvík inn í göngin milli Súgandafjarðar og Ísafjarðar. Það tel ég mjög áhugaverðan og spennandi kost því að þar með mundu menn ekki einungis tengja Ísafjörð og Bolungarvík heldur líka verið að tengja þessi smærri byggðarlög saman og jafnframt stytta leiðina frá Bolungarvík um suðurfirðina þegar þar að kemur.

Ég er sannfærð um að framtíðin verði í anda þessarar þingsályktunartillögu, að vegirnir verði færðir niður á láglendi. Það getur ekki verið að Íslendingar þurfi að standa frammi fyrir því alla tíð að fara með umferð upp á háa fjallvegi, í hvaða veðri sem er.

Við höfum einmitt dæmi frá suðurfjörðum Vestfjarða um hve mikil skammsýni fylgir því oft að setja vegina upp háa hálsa og fjallvegi. Á einum fjallveginum háttar svo til að vöruflutningabílstjórar keðja bílana sína jafnvel á sumardögum ef rignir af því að það er svo hált að þeir geta ekki haft stjórn á bílum sínum, jafnvel í rigningu. Það segir meira en mörg orð.

Ég er þeirrar skoðunar að gera eigi, um þetta mikla hagsmunamál okkar, vegasamgöngur, áætlanir til lengri tíma. Ég tel að það sé skynsamlegt sem lagt var til og samþykkt í jarðgangaáætlun sem er í gildi, að endurskoða áætlanir á ákveðnu árabili eins og er yfirleitt alltaf gert þegar gerðar eru langtímaáætlanir. Auðvitað breytast aðstæður og taka þarf nýja hluti inn í dæmin og ekkert nema gott eitt um það að segja.

Ég vek líka athygli á því að vegabætur, jarðgöng eða tillögur að göngum sem hér eru taldar upp, eru flestar á Vestfjörðum og Austfjörðum. Vestfirðir eru það svæði sem langlengst á í land í vegasamgöngum og brýnt að gera virkilega góða og raunhæfa áætlun um hvernig við ætlum að standa að því, íslenska þjóðin, að bæta samgöngur við þann landshluta. Nútímamaðurinn vill hafa greiðar samgöngur og öruggar á milli staða. Það er nauðsynlegt með tilliti til atvinnulífs og nútímalífshátta.

Eins og fram hefur komið eru flutningar að mestu leyti komnir á vegina, því miður vil ég segja. Í því felst ekki neitt öryggi, nema kannski fyrir neytandann sem fær vörur sínar með stuttum fyrirvara. En það er fleira sem taka þarf tillit til en það. Af þessu skapast oft á tíðum mikil hætta og óöryggi fyrir aðra vegfarendur því að flutningabílarnir fara illa með vegina. Þeir voru ekki byggðir þannig í upphafi að þeim væri ætlað að þola þá þungaumferð sem víðast hvar fer um vegina nú til dags. Á Vestfjarðasvæðinu er því sem næst allur flutningur á landi og því brýnna en áður að bæta þar vegasamgöngur.

Ég er mjög fylgjandi þeirri tillögu sem hér er komin fram og vona að hún leiði a.m.k. til þess að jarðgangaáætlunin verði tekin upp til endurskoðunar.