132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Láglendisvegir.

9. mál
[18:51]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér um samgöngumál. Þegar samgöngumálin eru rædd að þá kemur í ljós að óþrjótandi verkefni bíða Íslendinga hvað þau varðar. Hér er til umræðu þingsályktunartillaga er fjallar um láglendisvegi. Það hefur komið fram í umræðunni að það eru vegir sem byggja á jarðgangagerð til að tengja annars vegar Vestfirði og hins vegar Austfirði betur saman innbyrðis.

Mig langaði, frú forseti, að koma með annan vinkil í þessa umræðu. Ég held að við verðum jafnframt að líta á að við þurfum að ná styttingu leiða í landinu jafnframt. Það háttar þannig með hugmyndir um hálendisveg um miðhálendið, um Kjöl, að Kjalvegur uppbyggður kostar ekki nema um 3 milljarða kr. Það er lítil upphæð miðað við þá kílómetra sem þar um ræðir í samanburði við kostnað við hvern kílómetra í jarðgöngum. Slíkur vegur væri gríðarleg stytting á milli Suðurlands og Norðurlands. Ég vildi koma með þennan vinkil inn í þessa umræðu, að hálendisvegir geta verið gríðarleg arðbærir og svo yrði klárlega um þann veg.

Í dag er verið að undirbúa stofnun félags um einkaframkvæmd á þessum vegi. Ég er sannfærður um að sá vegur mun standa undir sér með veggjöldum. Hann mundi gera byggðunum á Norðurlandi, Eyjafirði, Skagafirði og Húnavatnssýslum, sem og á Suðurlandi, gríðarlega gott, bæði gagnvart ferðaþjónustu, atvinnurekstri og fleiri þáttum. Við eigum ekki einvörðungu að tala um samgöngur eins og allar leiðir liggi til Reykjavíkur. Það er mikið atvinnulíf norðan og sunnan Kjalvegar sem getur nýtt sér slíkan veg og mér finnst rétt að nefna hann sem valkost í umræðunni sem hér á sér stað.

Hins vegar get ég tekið undir það sem hér kom fram í máli hv. þm. Björgvins Sigurðssonar, að Hellisheiðin á Suðurlandi er náttúrlega langsamlega mest nýtt af hálendisvegum, þ.e. þjóðvegum okkar yfir heiðar. Þá leið verður auðvitað að bæta og það mun gert á næstu árum.