132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Láglendisvegir.

9. mál
[18:54]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Verkefnið sem hv. þm. Kjartan Ólafsson nefndi áðan um Norðurveg er gott verkefni og nær vonandi fram að ganga. Það mundi að sjálfsögðu breyta miklu um tenginguna á milli Norðurlands og Suðurlands og hefur marga kosti í för með sér.

En ég vildi hafa orð á því við hv. þingmann að breikkun Suðurlandsvegar, sem er einn fjölfarnasti vegur landsins og einn sá hættulegasti líka eftir að tvöföldun Reykjanesbrautar er í sjónmáli, og úrbætur almennt á Suðurlandsvegi hafa enn ekki allar verið færðar á samgönguáætlun. Við sjáum því ekki fyrir endann á framkvæmdunum þrátt fyrir þau tímamót að Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hafi ítrekað forgangsraðað ályktunum, kröfum í samgöngumálum og vegagerð, þannig að úrbætur og þrígreining vegarins austur fyrir fjall, frá Rauðavatni á Selfoss, ætti sér stað.

Þrjá milljarða kostar Norðurvegurinn, Kjalvegurinn, gott og vel. Það er talað um að tvöfaldur Suðurlandsvegur frá Rauðavatni til Selfoss kosti í kringum sjö milljarða og í sjálfu sér eru engar kröfur uppi um að ráðist verði í það á fáum árum að tvöfalda alla leiðina. En það er alveg klárt að það þarf t.d. að ljúka hið bráðasta úrbótum á Hellisheiðinni, sem er algjörlega óboðleg sem stendur. Hún er slysagildra. Hún stendur ekki undir þeim gríðarlega umferðarþunga sem þar er. Það er með ólíkindum hvernig hæstv. samgönguráðherra hefur dregið lappirnar í því máli. Hann tók því raunar fjarri hér í umræðum í þinginu í fyrra að það væri forgangsverkefni að þrígreina þessa leið.

Spurningin til hv. þingmanns var fyrst og fremst: Þarf ekki að leggja allt kapp á að ljúka þeim framkvæmdum sem ég nefndi og koma á samgönguáætlun?