132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Láglendisvegir.

9. mál
[18:58]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að heyra að hv. þingmaður tekur undir það að leggja þurfi allt kapp á að koma breikkun Suðurlandsvegar og samgöngubótum þar á samgönguáætlun og að menn sjái fyrir endann á þeim umbótum. Á því hefur staðið af hálfu stjórnarflokkanna hingað til þó að veruleg viðhorfsbreyting virðist hafa átt sér stað, enda vaxandi þrýstingur frá grasrótinni í héraði á að engu megi eira fyrr en því verkefni er í höfn komið.

Ég spurði hv. þingmann sérstaklega að þessu af því að hann hefur unnið að hugmyndinni að Norðurvegi og því verkefni, sem er hið besta mál. En þurfa menn ekki að setja kraftana í það, einmitt þessa mánuðina, að þrýsta á ríkisstjórnina og hæstv. samgönguráðherra með að koma til byggða í þessum málum, ef svo má segja? Verkefninu þarf að ljúka miklu fyrr en útlit hefur verið fyrir, enda er það ekki á samgönguáætlun. Menn hafa vísað í Suðurstrandarveg og slík verkefni, sem hæstv. ríkisstjórn hefur reyndar svikið þrisvar sinnum, að ég held. Hvort þeir svíkja það í fjórða skiptið, eftir að hafa lofað honum fyrir símapeningana á alveg eftir að koma í ljós.

En samgöngubætur og öryggismál á Suðurlandsvegi eiga að ganga fyrir eins og er, þessa mánuði og síðan fara menn að sjálfsögðu í næstu verkefni. Þessi gríðarlega fjölfarna leið má ekki verða útundan út af öðrum framkvæmdum. Þess vegna beindi ég fyrirspurn minni til hv. þingmanns, af því að nú verða menn að taka höndum saman til að ljúka verkefninu, að Suðurlandsvegur verði tvöfaldaður á köflum og lokið við lýsingu og þrígreiningu á þeim hlutum sem það á við, að sjálfsögðu sérstaklega á veginum upp á Hellisheiðina beggja vegna.