132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar.

[13:33]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ég hef vitnað í vitnisburð alþjóðlegra stofnana í sambandi við efnahagsástandið á Íslandi. Það er alveg rétt að stofnunin sem hann tiltekur hér kom með þessar ábendingar en ekkert núna nýverið. Þær voru hér í sumar og héldu blaðamannafund og þá kom þetta jafnframt fram.

Það liggur alveg fyrir að meginþungi skattalækkananna verður á árinu 2007 þegar framkvæmdir, sérstaklega í stóriðju, verða að mestu gengnar yfir. Þetta eru mjög mikilvægar skattalækkanir sem auka kaupmátt ráðstöfunartekna á næsta og þarnæsta ári og það stendur ekki til að breyta því. Ég hef sagt það áður að hér sé ekki um að ræða stærðir sem skipta slíkum sköpum í efnahagsumhverfinu að ástæða sé til að falla frá þessum skynsamlegu aðgerðum. Þó að menn vilji gera mikið með það sem ýmsar alþjóðastofnanir segja og ráðleggja er ekki þar með sagt að það eigi að fara eftir því öllu saman, að einu aðilarnir sem höndli sannleikann séu alþjóðastofnanir þó að merkar séu. Stefna ríkisstjórnarinnar er alveg skýr og það stendur ekki til að breyta stefnu hennar á vettvangi skattamála.