132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Úrvinnslugjald.

179. mál
[14:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um úrvinnslugjald. Eins og kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns er það árviss viðburður að frumvarp af þessu tagi komi til afgreiðslu hér. Hins vegar er þetta frumvarp viðameira en þessi árlegu frumvörp því að verið er að koma á reiknireglum sem ekki hafa verið til staðar í lögum hingað til. Öll sú vinna sem liggur að baki umræddu frumvarpi er komin til vegna skuldbindinga Íslands um að draga úr urðun úrgangs og þar höfum við tímasett markmið sem við þurfum að uppfylla. Satt að segja er ekki seinna vænna að þetta frumvarp líti dagsins ljós. Ég fagna því að það skuli loks vera á borðum okkar. Þetta er vonum seinna að mínu mati en ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því eins og kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra að það er gríðarlega viðamikið og flókið að reikna þetta allt saman eftir þeim kúnstarinnar reglum sem hér hafa verið notaðar. Sú skemmri skírn sem var til umræðu í fyrra að fara, þ.e. að setja 15% gjald á allt, var auðvitað ófær eða a.m.k. óásættanleg fyrir atvinnulífið og þá sem eftir þessum lögum eiga að vinna.

Það er mikilvægt þegar þessi mál eru skoðuð að tryggja að kerfið sé skilvirkt og að óathuguðu máli get ég ekki annað en vonað að þetta sé skilvirkt kerfi sem hér er verið að koma upp. Þetta er í sjálfu sér afar flókið og mikið umstang í kringum þetta allt saman. Mér sýnist af greinargerðinni og ræðu hæstv. ráðherra að málin séu undirbúin þannig að þau séu í samvinnu við hlutaðeigandi aðila, þá aðila sem þurfa að starfa eftir þessu og í góðri sátt þar um. Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að nefna að það stingur mig ævinlega í augun þegar þessi mál eru rædd að þeir sem að lagasetningum koma og reglugerðum eru eingöngu frá atvinnulífinu en aldrei frá þeim aðilum sem starfa að umhverfismálum í landinu. Þá er ég fyrst og fremst að tala um frjáls félagasamtök sem láta sig þessi mál miklu skipta og hafa ítrekað reynt að komast að ákvarðanatöku er varða umhverfismál. Þetta er dæmigerð ákvarðanataka þar sem sjálfstæð og frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála eiga auðvitað að koma að málum. Það er ekki eðlilegt að verkefnisstjórn af því tagi sem skipuð var til þess að vinna þetta mál sé eingöngu skipuð fulltrúum frá Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum iðnaðarins, Félagi íslenskra stórkaupmanna, tollstjóra sem er auðvitað eðlilegt að sé til staðar, og fyrir hönd tollmiðlara fulltrúi frá TVG-Zimsen, frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Félagi fiskvinnslustöðva auk fulltrúa frá Úrvinnslusjóði. Ég spurði hæstv. ráðherra um þetta á síðasta ári: Hvers vegna er ekki aðkoma félagasamtaka sem starfa á sviði umhverfismála opnari að þessari ákvarðanatöku og ég spyr hana enn. Sú tregða er óskiljanleg að þessi mál skuli ekki vera opin og aðgengileg og ekki sé kallað til það fólk sem starfar í þessum geira innan sjálfstæðra og frjálsra félagasamtaka.

Ég ítreka enn athugasemdir mínar og treysti því að hæstv. umhverfisráðherra fari að láta sér segjast í þessum efnum. Hún hefur Árósasamninginn sem er okkar rammi, okkar skuldbindandi rammi um hvernig við eigum að starfa í þessum málaflokki. Nú er að vísu komið fram frumvarp um lögfestingu á einni af þremur stoðum Árósasamningsins. Mér finnst það slóðaskapur af umhverfisyfirvöldum á Íslandi að ætla einungis að lögfesta eina af þremur stoðum þess samnings. Ég tel að samningurinn eigi að njóta lögfestingar, allar hans þrjár stoðir. Þá er ég að tala um í fyrsta lagi aðgang að upplýsingum, í öðru lagi þátttöku í ákvörðunum er varða umhverfismál og í þriðja lagi réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum. Þó að ekki sé búið að lögfesta allan samninginn tel ég að hugmyndafræði hans skuldbindi hæstv. ráðherra og þá á hún að horfa til þess á hvern hátt sjálfstæðir aðilar sem starfa að umhverfismálum geti komið að ákvarðanatöku í þessum efnum.

Einn þáttur frumvarpsins varðar lækkun úrvinnslugjalds á hjólbarða. Það er ekkert sérstakt fagnaðarefni að það skuli vera hægt að lækka úrvinnslugjald á hjólbörðum því að skýringin er eingöngu sú að það er svo gríðarlegur innflutningur á hjólbörðum og bifreiðum að til vandræða horfir í Úrvinnslusjóði. Það er innheimt allt of mikið af gjaldi til þess að farga hjólbörðum á Íslandi. Ég get ekki sagt, hæstv. forseti, að mér finnist þetta fagnaðarefni. Mér finnst til skammar fyrir okkur að það skuli vera svo mikið, umfram allar áætlanir, flutt inn af hjólbörðum og bílum að við skulum standa í þessum sporum nú.

Það er annað sem hæstv. umhverfisráðherra má bæta við syndaregistur sitt. Hvenær ætlar hæstv. umhverfisráðherra að fara að berjast fyrir sjálfbærum samgöngum á Íslandi og sjá til þess að hlutur einkabílsins í umferð á Íslandi sé minnkaður, að dregið sé úr honum á þann hátt að við séum þá að efla almenningssamgöngur í staðinn? Ég tel orðið tímabært að hæstv. umhverfisráðherra beiti sér í þeim efnum en ekki að eina merkið um að hún sé að beita sér í samgöngumálum sé að lækka úrvinnslugjald á hjólbarða af því að verið er að flytja inn svo gríðarlega mikið af einkabílum. Mér finnst þetta ekki til að hrópa húrra fyrir.

Síðan verð ég að ítreka, hæstv. forseti, að það er sannarlega orðið tímabært að dagblaðapappírinn komi inn í þetta kerfi. Það er ekki nokkur hemja að sveitarfélög vítt og breitt um landið skuli þurfa að auka kostnað sinn sem samfélagskostnað af förgun dagblaða bara eftir því hversu mörgum einkaaðilum úti í bæ dettur í hug að fara að gefa út dagblöð sem borin eru í hvert hús. Eigum við ekki að fara að axla einhverja ábyrgð í þessum efnum? Hvernig gerum við það, löggjafarsamkundan? Við setjum auðvitað úrvinnslugjald á pappír. Við sjáum til þess að pappír skili sér í úrvinnslu og þá verðum við að setja hann inn í gjaldtökuna.

Hæstv. forseti. Ég á eftir að fara betur ofan í saumana á þessu máli með hv. umhverfisnefnd. Þetta er ekki einfalt mál að fara í gegnum og við sem höfum setið í nefndinni í nokkur ár þekkjum það svo sem af fenginni reynslu að þetta er eitt af hinum flóknari málum sem koma til nefndarinnar og mikið mál að setja sig vel inn í það. En ég veit að umhverfisnefnd Alþingis vinnur vel og er samviskusöm nefnd og á eftir að setja sig vel inn í þetta allt saman.

Í lokin langar mig til að nefna að Alþingi Íslendinga, sem á að vera fyrirmyndarstofnun í umhverfismálum sem öðrum málum, hlýtur að verða að fara að setja sér umhverfisstefnu, endurvinnslustefnu og úrvinnslustefnu. Ég fullyrði að þó að við séum að reyna eftir veikum mætti án nokkurra reglna að flokka einhvern pappír þá er það ekki með þeim hætti sem vera skyldi og hvort sem það yrði hæstv. forseti sem hefði forgöngu þar um eða hæstv. umhverfisráðherra þá tel ég að Alþingi Íslendinga eigi að setja sér umhverfisstefnu.