132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Úrvinnslugjald.

179. mál
[14:09]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar aðeins að gera tvennt að umtalsefni varðandi ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. Það er annars vegar það að hún bendir á að einungis hagsmunaaðilar hafi verið við vinnu varðandi samantekt á frumvarpinu. Ég vil benda á að eftir 1. umr. í dag mun málið væntanlega fara til hv. umhverfisnefndar og þá gefst nefndinni tækifæri til að vísa málinu til þeirra frjálsu félagasamtaka sem hugsanlega hafa áhuga á að gefa umsögn í málinu. Því má spyrja hvort það sé ekki nægjanlegt þar sem þeir aðilar sem eru í slíkum atvinnurekstri eru fagaðilarnir sem þekkja mætavel til í þessum málaflokki.

Hitt vil ég svo aðeins koma inn á sem er gúmmígjaldið. Svo virðist vera, já, að það sé meiri innflutningur og það skal engan undra. Það er mikill innflutningur á ökutækjum og notkun ökutækja er mikil. Gríðarlegur innflutningur er á ökutækjum sem nota gúmmí sem tengist hinni miklu uppbyggingu á Austurlandi sem við eigum náttúrlega að fagna fyrst og fremst. Það er gríðarlegur gúmmíinnflutningur sem skilar sér þá væntanlega inn í þetta gjald hér og ég held að við getum einmitt fagnað því að svo mikil umsvif skuli vera í landinu að aukning sé á hráefninu til þeirra framkvæmda.