132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Úrvinnslugjald.

179. mál
[14:25]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þegar ég beindi athygli að stjórn Úrvinnslusjóðs gerði ég það í framhaldi af umræðum um það mál í fyrra. Eins og staðan er núna eru í raun og veru þrenns konar þátttakendur í stjórninni. Það eru í fyrsta lagi tæknimenn úr ráðuneytunum eða frá ráðherranum. Í öðru lagi aðilar frá sveitarfélögunum. Í þriðja lagi menn skipaðir af atvinnurekendum. Þetta getur út af fyrir sig verið heppileg skipan. Þarna koma að málinu þeir sem skipta miklu máli, atvinnurekendur sem þurfa að annast þessar greiðslur, sveitarfélögin sem sjá um förgun og þurfa að hirða sitt dót hvert á sínum stað. Einn fulltrúa vantar í þennan hóp og það er ósköp einfaldlega fulltrúi þeirra sem borga brúsann, þ.e. fulltrúi neytenda. Við töluðum svolítið um það í fyrra þegar stjórnarmál skiptu máli í frumvarpinu vegna þess að þá var verið að leggja niður hollusturáð sem áður kom nálægt þessum sjóði. Tillaga mín og okkar var sú að þarna kæmu inn menn, t.d. frá Alþýðusambandinu eða Neytendasamtökunum, óháð því hvaða álit þeir hafa á umhverfismálum og væru þeir þá fulltrúar þeirra sem borguðu brúsann. Ég held að það sé mál sem þyrfti að kanna og ég skora á ráðherrann að gefa því gaum og jafnvel fara með þessi mál öll í endurskoðun. Ég sagði áðan að nú væru þessi lög loksins að verða eins og þeim var ætlað í upphafi og þá er kannski kominn tími til að athuga hvort ekki má laga ýmislegt, ýmsar þær mannasetningar sem í upphafi voru gerðar.

Örstutt um dagblaðapappírinn. Ég tel að hæstv. umhverfisráðherra hafi gefið hér loforð um að hún ætli að skoða það mál og kannski ættum við hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir að ýta á það með sérstakri þingsályktunartillögu.