132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Náttúruvernd.

180. mál
[14:55]
Hlusta

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi. Það er mjög líklegt að umfjöllunin verði öll faglegri þegar það kemur fram jafntímanlega og raun ber vitni og ég er viss um að umhverfisnefnd á eftir að fjalla mjög rækilega um það. Efnistaka er mjög viðkvæm en engu að síður nauðsynleg og þess vegna verða lög um efnistöku að vera afar skýr og eins einföld og mögulegt er. Við verðum líka að tryggja virkt eftirlit í þessum efnum. Við byggjum hús og við gerum miklar kröfur um samgöngubætur í vegakerfi og öðru slíku. Þess vegna verðum við oft og tíðum að færa ákveðnar fórnir fyrir það. En eftir því sem lögin eru skýrari og öruggari þeim mun meiri líkur eru á að vel takist til.

Ég vil líka fagna því að framkvæmdaleyfi verði sett í hendur sveitarfélaganna því að engir eru betur til þess fallnir en heimamenn að fjalla um þessi mál, gefa umsagnir og leyfi sýnist mönnum að ástæða sé til þess. Þess eru reyndar mjög mörg dæmi að afar illa hafi verið gengið um slíkar námur vítt og breitt um landið en sem betur fer eru líka dæmi þess að menn gangi vel frá námunum og þar tekst oft mjög vel til eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns rétt áðan. Vegagerðin hefur bætt sig til mikilla muna í þessum efnum. Mjög algengt er þegar námuleyfi eru veitt að sérstakir samningar séu um að gengið skuli frá námunum með ákveðnum hætti.

Einnig er afar brýnt að kostnaðarmat fylgi þannig að menn geri sér grein fyrir hversu mikill kostnaður býr að baki fyrir sveitarfélögin og aðra þá sem að málinu koma.

Enn og aftur fagna ég frumvarpinu og hvet til þess að eftirlit verði eins virkt og mögulegt er og engir eru betur til þess fallnir en heimamenn að fjalla um hvar námur eigi að vera og hvernig skuli gengið frá þeim.