132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Náttúruvernd.

180. mál
[15:05]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara örfá orð varðandi c-lið 1. gr. frumvarpsins. Ég sé ekki annað en að sá misskilningur sem Umhverfisstofnun hefur varað við að geti komið upp vegna þessara mála sé enn til staðar með orðalaginu á c-lið. Ég sé ekki annað heldur en við komum til með að lenda í deilum um hvað sé sama svæði. Er svæðið sitt hvoru megin við ein vatnaskil sama svæði eða á sínum hvorum bakkanum við sömu ána? Er það sama svæði? Ég sé ekki annað en að við þurfum að fara vel ofan í saumana á því hvort orðalag c-liðar í 1. gr. sé þannig að hægt sé að vinna eftir því ákvæði eins og það er í frumvarpinu.

Það verður auðvitað skoðað í umhverfisnefnd. Við getum vonandi klárað þetta mál á skömmum tíma í umhverfisnefnd. Ég vil benda því fólki sem fagnað hefur því hve snemma þetta mál kemur fram á að það var lagt fram 13. október í fyrra og talað fyrir því í upphafi síðasta þings. Það lá fyrir umhverfisnefnd í allan fyrravetur, við unnum talsvert mikið í því en það var ekki vilji hjá meiri hluta nefndarinnar til að afgreiða málið.