132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skipun ráðuneytisstjóra og annarra embættismanna Stjórnarráðsins.

10. mál
[15:40]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar sem hópur þingmanna Samfylkingarinnar hefur lagt fram, tillögu sem lætur kannski lítið yfir sér við fyrstu sýn en skiptir meira máli en kannski er hægt að álykta í fljótu bragði.

Þingsályktunartillagan felur í sér að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að endurskoða fyrirkomulagið sem ríkt hefur á skipun ráðuneytisstjóra og annarra embættismanna Stjórnarráðsins í því skyni að skerpa skil á milli pólitískra ráðninga og ráðninga sem eiga að vera eingöngu faglegar og ráðninga á embættismönnum Stjórnarráðsins sem ráðnir eru til lengri tíma en þær ráðningar fara í dag að engu leyti eftir setutíma ráðherra eða kjörtímabilum.

Að mati okkar sem stöndum að flutningi þessarar þingsályktunartillögu er þetta að mörgu leyti spurning um trúverðugleika. Þetta er spurning um traust, trúverðugleika og ímynd. Við sem íbúar í landinu verðum að geta treyst því að þegar ráðið er í störf æðstu embættismanna í Stjórnarráðinu og ráðuneytisstjóra séu það ekki pólitískar duttlungar sem ráði slíkum ráðningum. Við hljótum að þurfa að geta treyst því að þeir hæfustu sem bjóða sig fram til slíkra starfa, bæði menntunarlega og reynslulega séð og á öllum þeim mælikvörðum sem lagðir eru og auglýstir eru jafnvel í auglýsingu, hljóti starfið svo lengi sem þeir metist faglega hæfastir en standi ekki frammi fyrir því, þrátt fyrir að hafa sýnt þann kjark að sækja um sem margir gera ekki í dag vegna þess að þeir ganga út frá því fyrir fram jafnvel að ekkert þýði að sækja um vegna þess að búið sé að úthluta stöðunni á bak við tjöldin, að það sé eingöngu til að skemmta skrattanum að sækja um hana.

Við hljótum að velta því fyrir okkur í hvaða stöðu við séum þegar slíkar efasemdir geta verið uppi, að þegar stöður sem eiga að vera eingöngu faglega skipaðar, að fólk sem gæti vel hugsað sér að starfa þar, hefði til þess hæfi og alla þá kosti sem þyrfti, þori í sjálfu sér ekki að sækja um vegna þess að það gefur sér að því verði hafnað á einhverjum öðrum mælikvörðum en lagðir eru til grundvallar þegar starf er auglýst, að þeim verði hafnað á mælikvarða pólitíkur sem á ekki að skipta neinu máli þegar kemur að ráðningu í viðkomandi starf.

Ég verð að segja alveg eins og er að hvort sem það er raunin, hvort við getum fullyrt að pólitíkin ráði of miklu við skipun embættismanna í Stjórnarráðinu, þá skiptir máli að einmitt slík spurning skuli vera uppi vegna þess að svo lengi sem þeir sem hugsa sér að sækja um slíka stöðu trúa því ekki að þeir verði metnir á faglegan hátt þá sækja þeir ekki um og við sitjum uppi með allt of fáa umsækjendur eins og kannski hefur verið raunin við auglýsingar á slíkum störfum undanfarið og erum ekki viss um að við höfum náð í hæfustu einstaklingana í þau störf.

Það sem við gerum með þessari þingsályktunartillögu er að benda á leiðir, benda á hvernig slíkum málum er fyrir komið í nágrannalöndunum, og förum í raun fram á að þetta mál verði skoðað. Við erum í sjálfu sér ekkert að leggja til einhverja eina ákveðna leið heldur að ríkisstjórnin taki á sig rögg og skoði hvort verið geti að það sé einhver halli á þessum málum, hvort nauðsynlegt sé að breyta þarna einhverjum reglum og skilja betur á milli hinna pólitísku starfa innan ráðuneytanna og Stjórnarráðsins og svo aftur þeirra sem ekki eiga að byggjast á pólitík, og komi svo að þeirri skoðun lokinni og í góðu samráði við okkur á Alþingi fram með reglur sem geta breytt því ástandi sem nú ríkir.

Við höfum verið að horfa á það undanfarin ár, eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni, að þjóðfélagið hefur verið að opnast. Upplýsingalög og stjórnsýslulög hafa gert það að verkum að við eigum að geta séð betur hvað ræður ákvörðunum hverju sinni, í hvaða feril mál fara og skoðað og lagt á það mælikvarða hvort farið sé að þeim reglum sem gilda. Það hlýtur að vera eðlileg og sjálfsögð krafa að við getum gert það líka í ráðningarmálum í æðstu stöður í Stjórnarráðinu. Við hljótum að gera þá kröfu til kjörinna fulltrúa þjóðarinnar að þeir tryggi að sá hæfasti sem sækir um starf hverju sinni verði ráðinn en þurfi ekki að una því að á hann sé lögð pólitísk mælistika og honum hafnað jafnvel þó að hæfi hans sé mest og best af þeim sem um sækja.

Ég vona satt að segja, frú forseti, að þingsályktunartillaga okkar nái fram að ganga. Ég sé ekki alveg í fljótu bragði af hverju hún ætti ekki að geta gert það. Eins og ég sagði fyrr er verið að fara fram á að ríkisstjórnin skoði þessi mál, velti því hlutlaust upp hvort ástæða sé til að skerpa á milli pólitískra starfa og embættismanna. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að ekki sé vilji hjá stjórnarflokkunum og hv. þingmönnum stjórnarflokkanna að styðja okkur í því að láta þessa skoðun fara fram nú og tryggja eins og hægt er með reglum að pólitík ráði ekki skipun í stöður og störf þar sem pólitík á engu að ráða.