132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skipun ráðuneytisstjóra og annarra embættismanna Stjórnarráðsins.

10. mál
[16:00]
Hlusta

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa ágætu umræðu. Ég er þess mjög meðvituð að sú umræða sem hér hefur farið fram hefur leitt mjög í ljós hvert Samfylkingin stefnir í málum eins og þessu, hvað Samfylkingin er að tala um þegar hún talar um stjórnfestu, hvað Samfylkingin er að tala um þegar hún segir að hún vilji betra lýðræði á öllum sviðum í landinu og að Samfylkingin meinar eitthvað með því þegar hún segir að hún vilji viðhafa öðruvísi vinnubrögð þegar hún kemst til valda.

Einhver af félögum mínum, og það hafa fyrst og fremst verið þingmenn Samfylkingarinnar sem hafa talað í þessu máli í dag, nefndi að þetta væri ekki stórt mál og það er rétt. Þetta er lítil tillaga en stórt mál vegna þess að þetta er mál um að breyta á mjög þýðingarmiklu sviði. Þetta er tillaga um fagleg og lýðræðisleg vinnubrögð, þetta er tillaga um að byggja upp traust og þetta er tillaga um að búa til faglegt ferli sem er þannig að það er virt að fólk menntar sig og nær sér í reynslu til að geta tekist á við þýðingarmikil störf í æðstu stjórnsýslu ríkisins og veit og treystir að það verði lagt undir réttláta mælistiku. Um það snýst málið.

Til þess að það verði með besta móti er lagt til að skoðuð verði reynsla annarra af ólíkum leiðum og nokkrar slíkar nefndar hér, auk þess sem formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fór nokkrum orðum um hvernig þessum málum er skipað í Bretlandi. Allt eru þetta leiðir sem ástæða er til að skoða og allar eru leiðirnar betri en þær sem þekkjast á Íslandi, hjá okkur. Um það snýst málið, að komast út úr ferli sem er tortryggt af öllum þorra fólks sem horfir á með hvaða hætti valið hefur verið inn í stjórnsýsluna á liðnum árum, með réttu eða röngu, tortryggni sem hefur verið byggð upp í landinu vegna vinnubragða sem ekki eru góð.

Virðulegi forseti. Mér finnst ekki slæmt að Samfylkingin hafi verið ein í þessari umræðu. Oft erum við, þegar við flytjum mál, að kalla eftir því að þingmenn komi frá öðrum flokkum og blandi sér í umræðuna. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að þingmenn annarra flokka hafi ekki tök á eða velja að hleypa umræðu fram hjá sér. Stundum erum við óánægð með það en í þessu máli er ég, sú er hér stendur og er 1. flutningsmaður að þessu máli, ekki ósátt við að Samfylkingin er ein í umræðu um þetta mál vegna þess að við erum að boða að við viljum öðruvísi vinnulag, við viljum meiri stjórnfestu.

Auðvitað er ég að vona að þetta mál náist fram á hv. Alþingi, ég hef ekki ástæðu til að vera vongóð. En umræðan boðar þá framtíðarsýn sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfum um hvernig flokkur okkar ætlar að vera þegar hann verður sterkt leiðandi afl í ríkisstjórn á Íslandi og örugglega ekki síðar en eftir næstu kosningar.