132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[18:10]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Við í Frjálslynda flokknum berum hag hinna dreifðu byggða mjög fyrir brjósti og við teljum að þetta frumvarp eigi fullan rétt á sér og umræðan sem hér fer fram er mjög þörf, sérstaklega hvað það varðar hvað ríkið á að styrkja hvern og einn framleiðanda, hvað ríkið á að styrkja hvern og einn ábúanda mikið. Við teljum að þær skorður sem reistar eru í frumvarpi séu jafnvel of háar. Eitt prósent er að mínu viti nálægt 45 milljónum.

Ég botna ekkert í því sem kom fram hjá hv. formanni landbúnaðarnefndar að finnast það vera of miklar takmarkanir. Ég held einmitt að ef við ætlum að hafa sátt um þetta kerfi, styrktarkerfið í landbúnaði, þá þurfi það að vera markmiðið að það nái til sem flestra, að við höfum ekki búin það stór að fólki ofbjóði sem er að borga skatta og það fari jafnvel 45 milljónir á einstaka bú.

Þess vegna langar mig að beina þeirri spurningu til hv. þm. Jóns Bjarnasonar hvort þetta ætti ekki að vera lægra en 1%, því mér sýnist þetta vera um 45 milljónir.