132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[18:18]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Það þarf enginn að efast um góðvilja hv. þm. Jóns Bjarnasonar til landsbyggðarinnar og til bænda og það er ekki þar sem okkur greinir á. Ég hef þann sama hug líka en ég vil hafa meira frelsi. Ég vil ekki binda fólk þannig að það geti ekki lifað af jörð sinni og það er mjög langt frá því að nokkurt bú sé komið í þann áhættuflokk sem hv. þm. Jón Bjarnason er með hér. Ég vil því segja enn og aftur: Þetta er ótímabært.

Það má líka segja, og er alveg rétt sem kom fram í máli hv. flutningsmanns Jóns Bjarnasonar hvað varðar svínabúin og það mikla stríð sem varð á kjötmarkaðinum ekki fyrir svo löngu, að sauðfjárræktin hafi þurft að líða fyrir það. Nú sjáum við í fyrsta skipti í mörg ár að það er ekkert kjötfjall til, það er ekkert uppsafnað lambakjöt í landinu og það er mjög gott. Staðan er allt önnur en verið hefur og við sjáum það líka að salan á lambakjöti hefur aukist. Ég vil minnast á það mikla og góða starf sem Baldvin Jónsson hefur verið að vinna í Bandaríkjunum með sölu lambakjöts í sérvaldar verslanir og þann ánægjulega árangur að nú er einnig farið að selja skyr og smjör til Bandaríkjanna í þessar sömu verslanir. Þarna er sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað fyrst þessar góðu vörur okkar eru farnar að seljast svona vel. Ég tel að það sé mjög bjart fram undan í íslenskum landbúnaði, virkilega bjartir dagar fram undan.

Það er oft talað um að það sé engin nýliðun í íslenskum landbúnaði, en samt sem áður er ótrúlega mikil nýliðun meðal kúabænda og jafnvel sauðfjárbænda líka. Þegar maður kemur á fund hjá Landssambandi kúabænda sér maður mikinn og stóran hóp af ungu fólki og það sama má segja um fund hjá Landssambandi sauðfjárbænda síðasta vor, þar var mikið af ungu fólki.

Ég er líka alveg sammála hv. þingmanni um öryggisþáttinn. Auðvitað skiptir hann miklu máli. Það skiptir miklu máli að öryggismál séu í lagi og ég get alveg tekið undir, og er hjartanlega sammála því sem kemur fram í fylgiskjali varðandi erindi sem Svínaræktarfélag Íslands lagði fram, að það skilyrði verði sett í starfsleyfi bús að það hafi yfir að ráða nægjanlega stóru landi. Það skiptir miklu máli, ég er alveg sammála því. Það skiptir líka máli að þeir sem eru með hesta eigi nægilegt beitiland og að hugað sé að þeim þáttum. Þegar ég var sveitarstjórnarmaður fyrir austan, í Rangárvallahreppi, flutti maður í þorpið með töluvert marga hesta og hann ætlaðist til þess að sveitarfélagið skaffaði sér land fyrir hrossin sín. Þannig á það náttúrlega ekki að vera. Auðvitað eiga menn að bera ábyrgð á því sem þeir eiga og hafa bæði nægilegt fóður og nægilegt landrými. Það er líka það sem hamlar því að búin verði mjög stór, það er vegna þess að þau þurfa landrými. Tökum stór kúabú sem dæmi, það er bannað hér á landi að loka kýr inni allt árið og kýrnar þurfa að fara út á beit og þær þurfa víðáttu til að hreyfa sig á og bíta gras.

Það sama á við um sauðfjárbúin. Það hefur oft verið talað um að þeir sem vilja hafa sem stærstu búin eigi að hafa svo og svo margt fjár en það eru landið og landgæðin sem takmarka það og ég hef þá trú að það sama sé upp á teningnum í mjólkurframleiðslunni. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að hafa marga gripi á hverju búi.

Sem betur fer er margt gott að gerast í landbúnaðinum og ég vil geta þess mikla og góða árangurs sem er orðinn í kornrækt. Það er verið að reyna að koma línræktinni áfram. Það er verið að byggja upp feygingarverksmiðju í Þorlákshöfn. Það er erfiður róður en ríkið er að reyna að hjálpa til við að koma þeirri verksmiðju upp. Það er eitt sóknarfærið fyrir bændur landsins og með aukinni kornrækt er hægt að brugga úr korninu og margir hugsa sér gott til þess og ég vona að hv. þm. Jón Bjarnason sé mér sammála um hvað það er mikilvægt.

Síðan er ég viss um að við erum ekki sammála um annað mál, en það er lyfjaframleiðsla úr genabreyttu korni sem gæti orðið milljarðahagnaður af ef vel tekst til. Síðan er náttúrlega margt annað gott að gerast og ég minnist þess að á síðasta vetri, þegar hv. landbúnaðarnefnd var að ræða um æðardúnsfrumvarpið, að nefndarmenn vildu leggja mikla áherslu á að dúnninn yrði nýttur sem best og það yrði sem mestur virðisauki frá honum í landinu. Svo má nefna aukna ferðamennsku og þá kröfu ferðaþjónustuaðila að geta farið að framleiða vöru á búum sínum til að selja til almennings, selja til ferðamanna. Ég veit að verið er að vinna í því í landbúnaðarráðuneytinu. Ég tel að það sé sátt um samninginn sem hefur verið gerður við bændur, mjólkursamninginn. Þó að hv. þm. Sigurjón Þórðarson telji að hætta sé á að landsmenn verði ósáttir við hann held ég að það sé sátt eins og þetta er í dag. Og ég er ekki hrædd við að samþjöppun verði svona mikil á búum, en ég er líka alveg tilbúin að skoða það að ef það lítur út fyrir að óhóflega miklar beingreiðslur fari á eitt bú þá verði halli á þeim greiðslum. Það hef ég alltaf sagt og mér finnst eðlilegt að það sé skoðað. En ég álít að það sé ekki tímabært að setja eina milljón lítra á hvert bú, þau eru þá ekkert mjög mörg búin eftir í landinu ef öll ættu að fara upp í þessa háu lítraframleiðslu.