132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[18:27]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Frumvarpið sem við erum að ræða snýst m.a. um það að ekki fari meira af fé skattborgaranna en 45 millj. kr. um það bil á hvern og einn stað, 45 millj. kr. Ég tel að ef sátt eigi að vera um þetta landbúnaðarkerfi sé það jafnvel of há tala. Þetta snýst ekkert um frelsi eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir virðist halda. Þetta snýst um það að takmörk séu á því hvað skattborgararnir eru að borga á einn stað. Það þarf að vera ákveðin pólitísk umræða um það. Það er mjög gott að hún fari fram, hún er mjög þörf. En vegna þess að hv. þingmaður talar svo mikið um frelsið og viðskiptafrelsið, þetta virðist snúast um það, þá væri fróðlegt að fá afstöðu hv. þingmanns til þess fyrirtækis sem hefur ákveðið að standa algerlega fyrir utan þennan stuðning frá ríkinu. Þá er ég að tala um Mjólku.