132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[18:40]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Málið sem hér er til umræðu er býsna athyglisvert og gott að hv. þm. Jón Bjarnason tók þetta hér upp. Þetta var reyndar einnig flutt á síðasta þingi.

1. gr. frumvarpsins fjallar í rauninni um tvennt, þ.e. hámarksrétt til beingreiðslna sem einstakur aðili getur fengið og svo að öðru leyti skyldur einkahlutafélags eða réttindi einkahlutafélaga varðandi beingreiðslur. Hvort tveggja er í rauninni mjög athyglisvert og mikilvægt atriði.

Varðandi fyrri hlutann, þ.e. þar sem lagt er til að hámarksréttur til beingreiðslna megi ekki nema nema 1% þá þýðir það að ef þetta skiptist jafnt niður þá fengju 100 aðilar á Íslandi þennan styrk eða stuðning ríkisins við bændur, framleiðendur og neytendur því að í rauninni er verið að styrkja alla þessa aðila með þessum beingreiðslum. Þá fengju sem sagt 100 aðilar þennan styrk.

Nú er raunin sú, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að þetta skiptist niður á 854 aðila árið 2004. Það segir mér að verið sé að setja ansi rúm mörk með því hámarki sem þarna er sett. Ég get ekki betur séð. Ég tel að full ástæða sé til að setja hámark. Ég er ekki fylgjandi því að stefnt sé í einhver risabú sem ég held að muni leiða af sér ómanneskjulegra umhverfi ef svo má segja. Ég fullyrði reyndar ekki að þau verði ekki eins væn dýrunum og smærri bú. En í það minnsta er það þó þannig að eftir því sem búin verða stærri þeim mun erfiðara verður að koma gripunum í grashaga því kýr eru stórar og þungar skepnur sem troða mjög niður í kringum sig og þær geta heldur ekki gengið mjög langt í haga.

Það verður fróðlegt að fá þetta mál í hv. landbúnaðarnefnd og gott að það skuli hafa fengist til umræðu á hinu háa Alþingi. Það hefur verið allt of lítið af því þann tíma sem ég hef setið á Alþingi að þingmannamál komist til nefndar. En hér höfum við reyndar í byrjun vetrar séð talsvert af því.

Síðan vil ég, frú forseti, taka fram að ég er allsendis ósammála hv. formanni landbúnaðarnefndar eða því sem kom fram í máli hennar áðan, að það væri eðlilegra að stefnumótun í málefnum landbúnaðarins færi fram fyrst hjá bændum áður en hún væri tekin til umræðu á hinu háa Alþingi. Ég tel að hið háa Alþingi geti fullt eins vel haft skoðun á því hvernig málefnum landbúnaðarins sé hagað án þess að fara þurfi fram stefnumótun áður hjá samtökum bænda. Þegar málið er tekið til umræðu hér tökum við að sjálfsögðu alltaf til greina aðstæður í landinu og reyndar jafnframt aðstæður víðar því að við hljótum að líta til nágrannalanda og Evrópu, jafnvel víðar í heiminum þegar við ræðum málefni íslensks landbúnaðar.

Þetta mál verður núna sent til umsagnar og það verður mjög fróðlegt fyrir okkur nefndarmenn í landbúnaðarnefnd að sjá viðbrögð þeirra sem fá málið til umsagnar.