132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Nýskipan í starfs- og fjöltækninámi.

15. mál
[19:26]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Í fyrri ræðu minni stiklaði ég á stóru og minntist á örfá atriði sem ástæða er til þess að tala um í þessari umræðu.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson minntist á afskaplega stóran hlut sem tengist þessu máli og ég ætla að byrja á því að fjalla örlítið meira um, þ.e. þá hugmynd okkar þingmanna í Samfylkingunni að framhaldsskólinn eigi frekar heima hjá sveitarfélögum en ríkisvaldinu. Ég vil á vissan hátt tengja þá hugmynd þessari tillögu af þeirri einföldu ástæðu, sem ég gat um áðan, að það er mjög nauðsynlegt að framhaldsskólinn og atvinnulífið tengist sterkum böndum. Ég sagði líka áðan að víða úti um land hefðu framhaldsskólar náð býsna góðu samstarfi og sambandi við atvinnulífið og á því á að byggja. Við teljum að framhaldsskólinn eigi heima hjá sveitarfélögum, m.a. vegna þess að framhaldsskólanám er nærþjónusta, þjónusta sem á að vera sem næst þeim sem hana nota og það er eðlilegt að það fólk sem býr í því umhverfi hafi það með höndum að stýra og stjórna þeirri þjónustu.

Ef sveitarfélögin hefðu yfirumsjón með framhaldsskólunum væri miklu einfaldara að tengja saman atvinnulífið og skólann. Ég sé það fyrir mér að atvinnulífið á ákveðnum svæðum, og þess vegna heildarsamtök atvinnulífsins í samvinnu við atvinnulífið á hverju svæði fyrir sig, gæti komið að rekstri skólanna með sveitarfélögunum. Í fyrri ræðu minni gat ég þess að víða hefði atvinnulífið einmitt beitt sér fyrir ákveðnu námi og við vitum að samtök atvinnulífsins koma að rekstri skóla. Það væri mjög spennandi kostur að sveitarfélögin og atvinnulífið kæmu saman að rekstri framhaldsskólanna. Það gæti verið með ýmsum hætti, en ef skólarnir væru í höndum sveitarfélaganna þá er ég alveg 100% viss um að sú samvinna væri miklu auðveldari og árangursríkari en þegar allt er rekið í gegnum hið miðstýrða apparat hér í borginni, eins og nú er.

Við höfum ýmislegt fyrir okkur sem bendir til þess arna, vegna þess að framhaldsskólakerfið okkar byggðist upp að frumkvæði sveitarfélaganna. Meðan verið var að byggja upp hið fjölbreytta nám um allt land var um að ræða samrekstur ríkis og sveitarfélaga, sem er reyndar vandræðarekstur, en það bjargaði uppbyggingu framhaldsskólanna að sveitarfélögin tóku frumkvæðið og byggðu upp framhaldsskóla um allt. Þess vegna er fyrirkomulagið jafnfjölbreytt og raun ber vitni og þess vegna eru framhaldsskólarnir svo víða. Það var reyndar ekki bara úti á landi sem þetta gerðist. Fjölbrautskólinn í Breiðholti varð til á þennan hátt og þannig getum við farið allan hringinn um landið. Ég er viss um að ef framhaldsskólinn væri hjá sveitarfélögunum mundum við sjá alveg nýtt þróunarskeið hjá honum og ekki er vanþörf á. Það verður að segja alla hluti eins og þeir eru og því miður er ástandið þannig núna, og búið að vera allt of lengi, að flestir framhaldsskólarnir hafa verið rígbundnir í fjárhagslegt svelti. Kraftarnir hafa farið í það að lifa af og reyna að kroppa af alls staðar þar sem hægt er en þróunarstarf situr eðlilega nokkuð á hakanum við slíkar aðstæður. Það er þó aðdáunarvert hvernig margir framhaldsskólar hafa náð að brjóta sig gegnum múra fjársveltisins og byggt sig upp af ótrúlegri fjölbreytni.

Við sjáum líka hvað er að gerast úti um land þar sem nýir framhaldsskólar koma til. Nýjasti framhaldsskólinn er á Snæfellsnesi. Ríkið stendur að vísu að rekstri þess skóla en sveitarfélögin völdu þá leið að taka höndum saman og byggja skólahúsið og leigja það síðan ríkinu til þess að flýta fyrir því að skólinn yrði til og kæmist í sómasamlegt húsnæði.

Við sjáum hvað er að gerast á næsta stað, í Borgarfirði, Borgarnesi og Borgarbyggð og nágrannasvæðunum. Þar er sveitarfélagið í samstarfi við ýmsa aðila í héraði að reyna að byggja upp framhaldsskóla. Ég man í raun og veru ekki eftir því að frumkvæði hafi komið frá ríkisvaldinu við það að byggja upp framhaldsskóla, sem sýnir að þessi þjónusta á heima einhvers staðar allt annars staðar en hjá ríkinu. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu í Samfylkingunni að framhaldsskólinn sé dæmi um þjónustu sem eigi heima hjá sveitarfélögunum.

Eins og ég sagði áðan, og einmitt í tengslum við þessa tillögu, þá held ég að það sé kristaltært að ef átak af þessu tagi á að ganga verða allir aðilar að ná saman. Ef framhaldsskólarnir yrðu færðir til sveitarfélaganna yrði hægt að byggja þá mjög sterkt upp með atvinnulífinu á hverju svæði fyrir sig.

Herra forseti. Það eru miklu fleiri hliðar á málinu og eitt af því sem minnst er á í greinargerð með þeirri tillögu sem við ræðum hér er skortur á námsráðgjöf í bæði grunn- og framhaldsskólum og lítil kynning á kostum verknámsins. Þessu þarf að breyta. Námsráðgjöf hefur verið allt of lítil, sérstaklega í grunnskólum en líka í framhaldsskólum. Mjög víða um land er jafnvel engin námsráðgjöf í grunnskólum og sáralítil kynning á þeim möguleikum sem bjóðast í verknámi. Síðan er algjör skortur á því, sem er líka áhyggjuefni, að til séu framtíðarspádómar um það hvar þörfin verður. Flestar nágrannaþjóðir okkar hafa slíkar framtíðarspár, sem m.a. nemendur geta notað sér til aðstoðar við að velja sér framtíðarleið. En þetta vantar algjörlega hjá okkur og er full ástæða til að slíkra upplýsinga sé aflað og þeim beint til nemenda sem eru að velta fyrir sér framtíðinni. Það er jú ein af mikilvægustu spekúlasjónum þeirra sem eru í námi að velta því fyrir sér hvað tekur við. Það liggur fyrir að þeim nemendum sem vita hvert þeir eru að fara gengur mun betur í námi en þeim sem eru í mikilli óvissu.

Sú staðreynd að bóknámsleiðin er mun greiðfærari í gegnum skólakerfið, og liggur miklu beinna við, hefur einnig ýtt undir að mun fleiri fara í bóknám en flestir telja æskilegt. Hinar leiðirnar krefjast meiri umhugsunar og það þarf að hnýta fleiri lausa enda.

Herra forseti. Enn á ný er tími minn á þrotum og ég læt hér staðar numið.