132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar.

[13:35]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mér þótti það nokkuð miður í morgun þegar ég skoðaði blöðin og sá að Morgunblaðið greindi frá því að hæstv. menntamálaráðherra teldi allt of hátt þetta tiltekna hlutfall eignaraðildar sem nefndin sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nefndi hér áðan komst að niðurstöðu um. Ég verð að viðurkenna að mér finnst að í þeim efnum hafi hæstv. ráðherra gert lítið úr ákveðinni sáttargjörð sem hún hafði miklar mætur á fyrir örfáum mánuðum og gerði mjög mikið úr. Mér þykir afar miður að hæstv. ráðherra skyldi ekki leyfa sér að standa með þeirri sáttargjörð sem hún kallaði svo sl. vor þegar komið var inn á landsfund flokks hennar, Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst að hæstv. ráðherra láti í það skína að hún hafi jafnvel alltaf haft þá skoðun að 25% hámarkseignarhlutfall sé of hátt. Mér finnst það skjóta skökku við ef skoðuð eru orð hennar í fjölmiðlum í fyrra þar sem hún sagði berum orðum að hún teldi að það bæri að líta á tillögur nefndarinnar sem eina heild og sagðist mundu leggja fram frumvörp til laga á Alþingi Íslendinga sem mundu byggja á tillögum fjölmiðlanefndarinnar.

Ég gerði grein fyrir þessum sjónarmiðum mínum á heimasíðu minni í morgun. Ég fer þar nánar í ummæli hæstv. ráðherra en mér þykir reyndar gott að heyra hæstv. forsætisráðherra segja það að hann telji þessa sátt þess virði að það þurfi að varðveita hana. Ég skil þá orð hans svo að hann vilji að áfram verði byggt á þeim sáttagrundvelli sem náðist í störfum fjölmiðlanefndarinnar þannig að ég tel svo sem að ekkert sé að brenna þó að hæstv. menntamálaráðherra hafi sagt það sem hún sagði. Ég treysti því bara enn að hæstv. ríkisstjórn standi við þann grundvöll sátta sem náðist í starfi fjölmiðlanefndarinnar.