132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar.

[13:37]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér finnst afar leitt ef hæstv. menntamálaráðherra sem boðaði til sérstaks fundar þegar við lukum störfum í svokallaðri fjölmiðlanefnd hefur nú skipt um skoðun og lítur svo á að sú sáttargjörð sem hæstv. ráðherra kynnti með miklum fögnuði síðasta vor sé ekki sú sem byggja megi á, og eins að haft sé eftir henni í Morgunblaðinu að 25 prósentin sem náðist sátt um sé allt of hátt hlutfall.

Ég tek líka fram fyrir hönd okkar í Frjálslynda flokknum að við lögðum þeirri niðurstöðu lið, þessari tölu, til að ná sátt um málið og við teljum þá niðurstöðu sem þarna náðist varðandi takmörkun á eignarhaldi alveg viðunandi.

Mér virðist hins vegar, hæstv. forseti, að upp sé kominn enn einn ágreiningurinn milli ríkisstjórnarflokkanna eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins. Hér birtist skýr ágreiningur um öryrkjamálið, varðandi styrk fyrir hreyfihamlaða, eftir landsfundinn og nú hefur forsætisráðherra sagt hér að hann teldi að þetta væri sátt sem ætti að byggjast á. Tveir ráðherrar í ríkisstjórninni, hæstv. ráðherrar Geir Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, telja hins vegar svo ekki vera. Ég fagna þó þeirri afstöðu hæstv. forsætisráðherra að það eigi að byggja á þessari skýrslu en það hins vegar opinberar enn einn ágreininginn á ríkisstjórnarheimilinu þannig að alls ekki virðist vera ljóst að það sé nein sátt í þessu máli, því miður.