132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar.

[13:41]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Fjölmiðlaskýrslan markaði tímamót, það er alveg rétt. Það voru ákveðnar sögulegar sættir sem fengust með fjölmiðlaskýrslunni en ég veit ekki betur en að einmitt til að mynda hv. þm. Mörður Árnason hafi lýst því yfir að það þyrfti að athuga þessa prósentu eitthvað betur. Ef hv. þm. Mörður Árnason má hafa sína persónulegu skoðun á því hvort þetta sé of há eða lág prósenta, af hverju má ég ekki hafa hana líka? Og ég hef alla tíð sagt það, það er mín skoðun, að þetta sé of há prósenta. Við byrjuðum með 5%, við fórum upp í 10% og síðan var þessu breytt.

Að sjálfsögðu tek ég undir það sem hæstv. forsætisráðherra sagði. Við munum leggja skýrsluna til grundvallar og við munum gera allt til þess að halda áfram þeirri sögulegu sátt sem náðist með fjölmiðlaskýrslunni og virkja alla flokka sem eru á þingi, alla þingflokka. (MÁ: Framsóknarflokkinn líka?) Menn sem þora að koma fram undir nafni koma að sjálfsögðu að því að mynda og móta þetta frumvarp sem við munum setja niður um fjölmiðla.

En ég verð að segja að það eru heldur kaldar kveðjur sem formaður stjórnmálaflokks sendir út til síns eigin flokksfólks. Hvað hefur gerst síðan fjölmiðlaskýrslan var samþykkt? Jú, eitt og annað hefur gerst í samfélaginu, m.a. landsfundur Sjálfstæðisflokksins, og hvernig forustumenn eru það í flokki sem eftir heilan landsfund sem fer í gegnum mjög mikla málefnavinnu, ætla síðan ekki að leggja við hlustir og ekki að útskýra hver stefna flokksins er? Eru það skilaboðin sem til að mynda formaður Samfylkingarinnar vill senda út til síns fólks þegar það er með aðalfund, að þegar Samfylkingin er með sinn landsfund eða flokksþing sé bara sagt: Nei, heyrðu, það sem þið ályktið, við ætlum ekkert að hlusta á ykkur? Þannig virkar þetta ekki í Sjálfstæðisflokknum. Við hlustum á það sem sagt er á landsfundi og við segjum fólki hver línan er.

Og hver er línan, með leyfi forseta?

„Koma þarf í veg fyrir samþjöppun og einokun á fjölmiðlamarkaði svo stórir aðilar á markaði fái ekki neytt aflsmunar til þess að hafa áhrif á fréttaflutning og skoðanamyndun í landinu.“ Þetta er sú skoðun sem landsfundur gaf út, fjölmennasti landsfundur sem sögur fara af.