132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Staða útflutningsgreina.

[14:05]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Lítið var um svör hjá hæstv. forsætisráðherra varðandi stöðu útflutningsgreinanna og hvað ríkisstjórnin hygðist gera í þeim efnum við að bæta þá stöðu. Ég næ því nú ekki alveg hvernig gengisvísitalan á að meðaltali að geta orðið 110 á þessu ári ef hún var 110 fyrsta fjórðung ársins, síðan hefur gengið styrkst jafnt og þétt. Hæstv. ráðherra hlýtur þá að vera að segja okkur að gengið komi til með að falla mjög skart það sem eftir lifir ársins til þess að meðaltalið geti orðið 110.

Útflutningsgreinarnar, sagði hæstv. ráðherra, eru í misjafnri stöðu og það er að hluta til rétt. Sjávarútvegurinn er í ívið betri stöðu en aðrar greinar vegna þess að afurðaverð hefur verið að hækka á erlendum mörkuðum. Eftir sem áður eru sjávarútvegsfyrirtækin við núverandi aðstæður rekin að meðaltali með halla. Þegar við lítum á meðaltöl og sjáum að stóru og sterku fyrirtækin eru kannski að reka sig betur hlýtur að vera orðið ansi erfitt hjá þeim sem minni eru, enda sjáum við að minni fyrirtækin og sérstaklega í fiskvinnslunni eru að láta verulega undan síga þessa dagana og við erum að verða vitni að því að forráðamenn þessara fyrirtækja, bæði smærri fyrirtækjanna og eins þeirra stærri, eru að lýsa því yfir þessa dagana að rekstrarumhverfið sé orðið óbærilegt.

Það er í raun ekki boðlegt við þessar aðstæður að koma hér upp og yppa öxlum nánast og segja: Við gerum ekkert í þessu. Það hefur verið línan frá hæstv. ríkisstjórn að það sé á herðum Seðlabankans að sjá um þessi mál og ríkisstjórnin sé stikkfrí.

Frú forseti. Þetta getur ekki gengið. Sjávarútvegsfyrirtækin og fyrirtækin í útflutningi segjast hvorki geta lifað né dáið við núverandi aðstæður og það versta sem gert er er að gera ekki neitt, eins og mér finnst að hæstv. ráðherra sé að boða.