132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Staða útflutningsgreina.

[14:12]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Óbreyttri skattastefnu skal fram haldið var haft eftir Halldóri Ásgrímssyni, hæstv. forsætisráðherra í blöðunum í dag. Hvorki skal breyta áherslum í þá veru að skattabreytingar gagnist betur lágtekjufólki sem fer með allar tekjur sínar í daglegar þarfir, né heldur með t.d. hærri persónuafslætti eða lækkun virðisaukaskatts af matvælum. Nei, áfram skal ýtt undir eyðslu þeirra sem mestar hafa tekjurnar með afnámi hátekjuskatts og flatri prósentulækkun tekjuskattsins.

Ráðherrar í ríkisstjórninni tala sitt á hvað um gengismálin. Sjávarútvegsráðherra segir í Fréttablaðinu 13. október sl. að það sé skylda hans að koma til móts við eðlilega gagnrýni útflutningsfyrirtækja á hátt gengi krónunnar með raunhæfum aðgerðum. Hann nefnir hærri bindiskyldu fjármálastofnana, breytta umgjörð íbúðalána og umfangi þeirra, skoða starfsemi Íbúðalánasjóðs, marka nýja stefnu um gjaldeyriskaup Seðlabankans til jafns við það sem útlendingar eru núna að kaupa af íslenskum skuldabréfum.

Á að gera eitthvað af þessum áherslum, hæstv. forsætisráðherra? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera nú eftir að verkalýðshreyfingin hefur lýst því yfir að forsendur kjarasamninga séu brostnar? Sjávarbyggðirnar standa víða illa vegna stefnu ríkisstjórnarinnar og vafasamt um framtíðarrekstur fiskvinnslu við þessi skilyrði. Þar til viðbótar veikjast byggðirnar vegna kvótasetningar í krókaaflamarki og atvinnutækifærum fækkar. Gengi íslensku krónunnar er í sögulegu hámarki. Vaxtahækkanir Seðlabankans hækka gengið. Tekjuafgangur ríkissjóðs er vegna viðskipta og þenslu á vissum svæðum landsins, einkum höfuðborgarsvæðinu og á Austfjörðum. Sveitarfélög horfa víða fram á minnkandi atvinnu og tekjusamdrátt. Stjórnvöld verða að bregðast við miklum vanda landsbyggðarinnar og útflutningsgreinanna og ferðaþjónustunnar.

Það er auglýst eftir aðgerðum. Á að gera eitthvað af því sem aðrir ráðherra í ríkisstjórninni segja?