132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Staða útflutningsgreina.

[14:14]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Staða útflutningsgreina hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. Það er ekki óeðlilegt þar sem flest skilyrði eru útflutningsgreinum óhagstæð í dag. Mikil styrking krónunnar gerir vissulega mörgum fyrirtækjum erfitt fyrir þar sem þau fá færri krónur fyrir afurðir sínar en ella. Á móti kemur þó að skuldir þessara fyrirtækja erlendis lækka. Þetta snertir margar atvinnugreinar en sérstaklega hefur þó verið rætt um sjávarútveg og ferðaþjónustu.

Varðandi sjávarútveginn hefur skellurinn ekki orðið eins mikill vegna þess að fyrirtæki í sjávarútvegi hafa eflst gríðarlega síðustu ár. Hins vegar horfum við ekki fram hjá því að störf í sjávarútvegi hafa glatast, ekki einungis vegna tækniþróunar heldur einnig vegna hás gengis krónunnar.

Útvegsmannafélag Norðurlands ályktaði um málið fyrir stuttu og sagði þar m.a., með leyfi forseta, að:

„… vari þetta ástand áfram eru þúsundir starfa í uppnámi.“

Nánast allar tekjur þessara fyrirtækja eru í erlendri mynt og heggur hækkunin beint í tekjurnar með áðurgreindum afleiðingum. Það þarf líka að horfa á að aðrar ástæður koma til eins og hátt olíuverð.

Við verðum að líta til þess að vegna þess hve markaðurinn er opinn hefur ríkið þetta ekki algjörlega í hendi sér. Það er ekki nóg að einungis ríkið beiti sérstökum aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum líkt og það hefur gert. Vaxtatæki Seðlabankans er ekki eins öflugt og áður. Vaxtamunurinn gefur erlendum aðilum tækifæri til að fjárfesta í innlendum skuldabréfum. Ljóst er að mikið innflæði styrkir krónuna. Seðlabankinn verður að endurskoða aðferðir sínar þar sem skiptar skoðanir eru um hvort þær skili árangri eða ekki.

Ekki er rétt að segja að hæstv. forsætisráðherra boði að ekkert eigi að gera. Aðhaldsstig ríkisfjármála hefur verið meira hér en í nokkru öðru OECD-ríki síðustu ár og verður áfram. Eins hefur ríkisstjórnin kynnt langtímastefnu í ríkisfjármálum sem skiptir gríðarlega miklu máli í slíku sambandi.