132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Staða útflutningsgreina.

[14:16]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þingmönnum Frjálslynda flokksins fyrir að taka þetta mál upp til umræðu á þinginu því það er nauðsynlegt að ræða það. Ég held líka að allir þingmenn hér hljóti að fá sterk skilaboð um það ekki síst frá landsbyggðinni sem stynur undan því háa gengi sem hér hefur verið nú um nokkurt skeið. En það er eiginlega alveg sama hversu oft við ræðum þessi mál, hversu oft við ræðum stöðuna í efnahagsmálum og þær sveiflur sem þar eiga sér stað, það eru eiginlega tvö lykilorð sem notuð eru í umræðu stjórnarliða hér í þinginu. Það er annars vegar hugtakið stöðugleiki og nú er komið nýtt hugtak til sögunnar sem er hugtakið aðhald. Það er stöðugleiki og aðhald. Forsætisráðherra segir stöðugleiki og fjármálaráðherra segir aðhald.

Hér í eina tíð þegar Soffía frænka var beðin um að syngja á þorpshátíðinni í Kardimommubænum sagðist hún bara kunna eitt lag og það ætti ekki við hér. Ég held að þessir ágætu ráðamenn ættu að taka sér hana til fyrirmyndar og gera sér grein fyrir því að þó að þeir kunni þetta lag ágætlega þá á það kannski ekki alveg við hér í þeirri stöðu sem nú er uppi.

Auðvitað er ekkert svartnætti í efnahagsmálum á Íslandi. Auðvitað hefur margt gengið vel. Það hefur verið mikil gróska og öflugt atvinnulíf á mjög mörgum sviðum en við stöndum engu að síður andspænis meiri sveiflum en oft áður og í Peningamálum sem gefin eru út af Seðlabankanum kemur m.a. fram að það þurfi að fara allt aftur til ársins 1980 til að finna viðlíka ójafnvægi í þjóðarbúskapnum og við þær aðstæður, hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra, þá eiga þessi hugtök ekki við. Menn eiga að horfast í augu við staðreyndirnar og þó að vandinn sé erfiður viðureignar þá er hann ekki óviðráðanlegur en það þarf auðvitað samráð fjölmargra aðila um málið.