132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Leyfisveitingar til fyrirtækja.

169. mál
[14:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur boðað að stjórnsýslan skuli einfölduð og gerð skýrari og afkastabetri. Ég tel það vera mjög þarft mál og ég er tilbúinn að styðja hann hvað það varðar í einu og öllu. Það er ein tillaga og eitt mál sem ég tel mjög brýnt að hæstv. forsætisráðherra fari rækilega yfir, en það eru leyfisveitingar til fyrirtækja, sérstaklega þeirra sem eru í veitingarekstri. Fyrirtæki þurfa orðið að fá fjöldann allan af leyfum og sækja þau til margra aðila. Það þarf að fá veitingaleyfi hjá sýslumanni. Síðan þarf að fá vínveitingaleyfi hjá sveitarfélaginu en mér skilst að það hafi komið til þegar sveitarfélögin heimtuðu það vegna tilkomu súlustaða. En það flækti stjórnsýsluna mjög mikið að Reykjavíkurborg vildi fá að veita þau leyfi til þess að geta komið í veg fyrir útgáfu vínveitingaleyfa til þeirra staða. Síðan eru það leyfi til heilbrigðisnefnda, t.d. tóbakssöluleyfi. Og þá þarf að fara fram mikil hringekja vegna þess að öll þessi leyfi þurfa að fá umsögn hjá fjölmörgum aðilum í samfélaginu. Það þarf að fá leyfi hjá eldvarnaeftirliti, hjá vinnueftirliti og til útgáfu vínveitingaleyfis þarf umsögn heilbrigðiseftirlits, m.a. til að meta innanhúsmuni veitingahússins.

Þessar reglur eru orðnar svo flóknar að þær verður að einfalda, sérstaklega í ljósi þess að um er að ræða mjög lítil fyrirtæki. Í umræðunni um þetta hef ég lagt til að þessu verði breytt á þann hátt að sýslumenn haldi utan um leyfið. Síðan komi umsagnir frá mismunandi aðilum í samfélaginu, eldvarnaeftirliti, heilbrigðiseftirliti og sveitarfélögum, en að haldið verði utan um leyfið á einum stað. Ég held að það fari mjög vel á því að það verði hjá sýslumönnum en það er líka gott að efla þær stofnanir. En að endurskoða þessi leyfismál öll er ekki einungis áhugaefni hjá okkur í Frjálslynda flokknum heldur hefur það heyrst að mönnum í atvinnulífinu finnist nóg um og að það hljóti að vera hægt að einfalda þetta. Ég er sannfærður um það og það verður fróðlegt að heyra afstöðu hæstv. forsætisráðherra í því efni.