132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Gegnumlýsingartæki fyrir tollgæsluna.

100. mál
[14:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra vegna starfa tollgæslunnar við eftirlit með innflutningi í gámum.

Þannig háttar til að árið 2004 voru 150 þús. 20 feta gámar fluttir til landsins og ætla má að á þessu ári verði þeir 165 þús. Aðeins um 1% þeirra eru skoðaðir. Við hverja skoðun á gámi þurfa tollverðir að opna hann og fjarlægja innihaldið, þ.e. handlanga út úr gámnum til þess að geta skoðað innihald hans.

Tollgæslan í Reykjavík hefur hins vegar sendibíl með gegnumlýsingartæki og í ársskýrslu árið 2004 segir um gegnumlýsingarbifreiðina, með leyfi forseta:

„Á síðastliðnu ári náðist góður árangur í baráttu gegn innflutningi fíkniefna, m.a. fyrir tilstilli gegnumlýsingarbifreiðar embættisins. Starfsmenn gegnumlýsingarbifreiðar áttu þátt í að finna nokkrar af stærstu fíkniefnasendingum sem reynt var að smygla til landsins. Þar komu að vísu nokkrir aðrir til sögunnar eins og áhættugreiningardeild tollsins og tollverðir líka. Auk þess fannst töluvert af öðrum ólöglegum varningi. Alls voru 10.338 pakkar eða hlutir gegnumlýstir á liðnu ári.“

Þannig er með sendibílinn og gegnumlýsingartækið að handlanga þarf hvern pakka í gegnumlýsingartækið. Ég spyr hins vegar í þessu tilviki um tæki sem er til að gegnumlýsa gáma, sem getur skoðað gám án þess að varningur sé tekinn út úr honum. Það tekur aðeins 3 mínútur að keyra í gegnum slíkt gegnumlýsingartæki. Þeir aðilar sem eru við skoðun með þeim búnaði geta séð hvort þar séu hlutir sem óæskilegir eru eða ekki ættu að vera þar. Ég tel mikilvægt að verða sér úti um slíkt tæki. Það kostar um 80 millj. kr. og væri fljótt að borga sig upp. Auk þess mætti til reynslu taka slíkt tæki á leigu.

Ég hef leyft mér að leggja fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra: Er fyrirhugað að kaupa eða leigja tæki fyrir tollgæsluna til að gegnumlýsa gáma, farartæki, pallavöru og fleira, við innflutning til að herða eftirlit með innflutningi fíkniefna?