132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Gegnumlýsingartæki fyrir tollgæsluna.

100. mál
[14:44]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og ráðherra fyrir svör hans. Ég vona að vinnan hjá tollstjóranum beri árangur. Ég hef séð þennan búnað í notkun. Þetta er virkilega góður búnaður og hann nýtist ekki aðeins til eftirlits með fíkniefnum heldur sér hann allt sem í gámunum er. Ég veit að það er fleira smygl en bara fíkniefni.

Ég held að hægt væri að spara á móti. Ég hef rætt við aðila sem hafa áhuga á þessum málum um að þeir ættu að fara í viðræður við ríkisvaldið, stofna fyrirtæki og fá ákveðinn grunnkostnað greiddan. En ef menn mundu árangurstengja þær greiðslur þá held ég að tollurinn mundi fá margfaldar tekjur fyrir þessum kostnaði, ef rétt er staðið að.