132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Gegnumlýsingartæki fyrir tollgæsluna.

100. mál
[14:47]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég verð bara að þakka hv. þingmönnum fyrir afskaplega jákvæða og málefnalega umræðu. Það er auðvitað öllum ljóst sem að þessum málum koma og með þessum málum hafa fylgst að við þurfum að standa okkur í því að fylgjast með þessum innflutningi og við höfum heilmikla möguleika til þess. Ég held reyndar að löggæsluyfirvöld hafi náð þó nokkuð góðum árangri á undanförnum missirum í þessum efnum.

Hins vegar þurfum við að gæta að því eins og alltaf að við fáum þau tól og tæki sem hagkvæmust eru hverju sinni, skila árangri fyrir það verð sem fyrir þau þarf að greiða og auðvitað þurfum við að gæta að því að aðstaða fyrir starfsmenn til þess að sinna sínu starfi sé slík að þeir geti unnið það með fullum sóma þannig að það skili árangri fyrir land og þjóð.