132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Jöfnun flutningskostnaðar.

107. mál
[14:55]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þróun flutningskostnaðar innan lands og ekki síður breytt skipulag flutninga hér innan lands er mikið umhugsunarefni. Strandsiglingar hafa lagst af að heita má hjá þessari eyþjóð og allir þungaflutningar eru komnir upp á vegina sem þó eru á engan hátt í stakk búnir til að taka við þeim. Mikil fákeppni eða í raun alger fákeppni ríkir á þessum markaði þar sem tveir risar skipta honum nær öllum saman á milli sín.

Flutningskostnaður hefur sannarlega hækkað og íþyngir mjög bæði framleiðslustarfsemi, atvinnulífi og íbúum dreifðra byggða og kemur niður á lífskjörum þar. Engu að síður hefur hæstv. ríkisstjórn verið að gaufast við þetta mál, eins og við heyrðum í svari ráðherra, í þrjú, fjögur, fimm ár. Hér var rakinn skýrslugangur og vandræðagangur og ferli og fundarhöld út og suður og samtöl milli ráðuneyta í þrjú, fjögur, fimm ár og niðurstaðan er engin. Það er engin samstaða í ríkisstjórninni um að gera eitt eða neitt og er þó ekki búið að lofa svo litlu.

Mér heyrðist hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) kalla fram í áðan að stjórnarflokkarnir stæðu alltaf við kosningaloforðin. Þetta var líka kosningaloforð, hæstv. ráðherra, á framboðsfundunum í Norðausturkjördæmi, (Forseti hringir.) að það yrði gripið til ráðstafana til þess að lækka flutningskostnað.

(Forseti (SP): Forseti vill benda hv. þingmönnum á að þegar þeir gera stutta athugasemd við fyrirspurn þá hafa þeir eina mínútu samkvæmt þingsköpum.)