132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Jöfnun flutningskostnaðar.

107. mál
[14:58]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Það er orðinn vani og hefð að hv. þm. Kristján Möller komi inn á flutningsjöfnun og flutningskostnað og það er ágætt. Það er svona jafnmikil hefð fyrir því og að þing kemur saman og sláturtíð hefst. (Gripið fram í.)

Nú vil ég benda á það sem hv. þingmaður sagði áðan að olíugjald var tekið upp og það er nýmæli og það er rétt hjá honum. Það er nýmæli og mér finnst full ástæða til að skoða hvernig sú kerfisbreyting hefur tekist til. Ég hef lengi haft þá skoðun að það ætti að kanna það mál, þ.e. hvort ekki væri rétt að láta olíugjald á alla olíunotkun á landi sem kæmi þá landflutningunum til góða. Þá yrði gjaldið lægra og það mundi gera það að verkum að flutningskostnaður um þjóðvegina yrði lægri en ella. Þetta finnst mér eðlilegt að yrði skoðað. Jafnframt vil ég benda á það að eftirlit með þungaflutningum er mjög mikið og það mætti kannski spara (Forseti hringir.) eitthvað í þeim eftirlitsiðnaði.