132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Jöfnun flutningskostnaðar.

107. mál
[14:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Jöfnun og lækkun flutningskostnaðar úti um land var eitt af hinum digru kosningaloforðum Framsóknarflokksins sem núna hafa farið í ruslakörfuna eins og svo mörg önnur sem lúta að landsbyggðinni og sérstaklega að hinum félagslegu þáttum þar. Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti upplýst hvenær ætlunin sé að standa við þetta kosningaloforð. Í skýrslu sem Hagfræðistofnun vann fyrir samgönguráðuneytið líklega 2002 um þróun flutningskostnaðar minnir mig að hefði staðið að flutningskostnaður til Ísafjarðar hefði hækkað um 70–80% umfram almennar verðlagshækkanir og skyldi maður þó halda að samþjöppunin og einokunin og fákeppnin sem hefur hafið innreið sína í flutningageirann hefði þó kannski átt að lækka flutningskostnaðinn.

Ég vil spyrja ráðherrann: Hvaða eftirlit er með hinum slæmu afleiðingum einokunar og fákeppni í flutningageiranum, hvaða eftirlit er með því (Forseti hringir.) hvernig það fer fram?