132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Jöfnun flutningskostnaðar.

107. mál
[15:05]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil segja út af þessari síðustu spurningu að ég brá mér úr landi og frétti að það hefði verið umræða um að hér væri bara ein ríkisstjórn í landinu og ég er sammála því. Ég fer því ekki að benda á einstaka ráðherra sem hafi einhverjar sérstakar skoðanir, kannski ekki alveg sömu (ÁRJ: Er það leyndarmál?) og ég í málinu.

Ég er búin að fara yfir þessa sögu og hún er að verða dálítið margbreytileg. Málið er að ekki er búið að taka neina ákvörðun um að fara út í flutningsstyrki og það er ekkert í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að fara út í slíkt fyrirkomulag. Og það er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar sem er það plagg sem við vinnum eftir.

Hins vegar getur vel verið að einhverjir flokkar hafi haft stefnu fyrir kosningar sem hafi síðan ekki komist inn í þetta plagg. Það er mál út af fyrir sig og það þýðir ekkert að staglast á því að þetta hafi verið kosningaloforð einhverra fyrir kosningar og ég kannast alveg við það að hafa talað um þetta mál sem mikilvægt mál og stend við það.

En ég ætla að ítreka að við vorum ekkert að tala um neinn jöfnunarsjóð. Við vorum að tala um styrki, styrkveitingar til að koma til móts við hluta af þeim kostnaði sem iðnfyrirtæki á landsbyggðinni verða fyrir vegna þess að þau eru staðsett á landsbyggðinni en ekki þar sem markaðurinn er stærstur, sem er hérna á suðvesturhorninu. Það er málið. Og ESA gat alveg fallist á það, eða heyrðist mér, það er ekki búið að fara formlega með þetta til ESA. En Norðurlöndin eru með svipað fyrirkomulag og það virðist hafa verið fallist á það.

Hvað varðar einokun í flutningsgeiranum og eftirlit hlýtur hv. þm. Jón Bjarnason að vita að við erum með samkeppnisyfirvöld í landinu sem fylgjast með slíku.

Ég vil síðan segja að síðustu að mér finnst að ekki hafi verið sérstaklega mikill þrýstingur frá atvinnulífinu sjálfu um að taka upp þetta fyrirkomulag. Ég veit alveg um þrýsting frá hv. þm. Kristjáni Möller og einhverjum fleirum en þrýsting frá atvinnulífinu hefur skort.