132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar.

182. mál
[15:08]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar eru tíu talsins í dag. Þær starfa við mjög breytilegar aðstæður sem felast m.a. í því að landsvæði sem þær þjónusta er mjög misstórt. Ein þjónar t.d. öllu Suðurlandi en önnur Vestmannaeyjabæ. Íbúar svæðanna eru mismargir og á einum stað er háskóli á aðalstarfssvæði símenntunarmiðstöðvarinnar. Þannig hafa sumar stöðvar allt að sex útstöðvar sem kennt er í og þjónustaðar, t.d. á Vesturlandi og Norðurlandi vestra á meðan aðrar hafa starfsemi sína eingöngu eða nánast eingöngu á einum stað. Dæmi um það eru Vestmannaeyjar, Suðurnes og Akureyri.

Í sumum tilfellum er þjónusta við háskólanemendur stærsti einstaki þátturinn í starfsemi þeirra á meðan þjónusta við fyrirtæki er veigamest hjá öðrum. Allar stöðvarnar hafa fengið sama lágmarksfjármagn árlega á fjárlagalið menntamálaráðuneytisins og þannig ekki verið tekið tillit til mismunandi aðstæðna. Sumar þeirra hafa jafnframt fengið aukafjárveitingu til tiltekinna mála. Má þar nefna fræðslumiðstöð Vestfjarða og fræðslumiðstöð Austurlands. Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvunum hefur ekki verið settur lagarammi og fjármagni til þeirra er útdeilt árlega af menntamálaráðuneytinu án þess að settar hafi verið viðmiðanir eða tekið tillit til sérstöðu hverrar og einnar eftir því sem best verður séð.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Hefur ráðuneytið styrkt fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar? Ef svo er, hversu háir hafa styrkirnir verið sl. fimm ár, sundurliðað eftir árum og stofnunum, og til hvaða verkefna fóru þeir?