132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar.

182. mál
[15:14]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það að símenntunarstöðvarnar hafa kvartað mjög mikið undan því hvað þeim er mismunað. Þetta er afskaplega mikilvægt starf sem símenntunarstöðvarnar inna af hendi. Aukningin á fjarnámi og menntun í landinu hefur aukist ár frá ári og sýnir hvað þessi þáttur er mikilvægur.

Mig langar aðeins að geta þess af því að ég er með fjárlagafrumvarpið fyrir framan mig, að á vegum menntamálaráðuneytisins fer í þennan málaflokk 191,4 millj. kr. og þar af eru símenntunarmiðstöðvarnar með 9,9 millj. fyrir næsta ár í frumvarpinu. Síðan má geta þess að til Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins er áætlað að fari 66,1 millj. kr. Þetta er gríðarlega mikilvægt og ég vil taka undir að styrkari lagaramma vantar utan um þessar stöðvar. Þær eru mjög mismunandi, það er mjög mismunandi starf sem þar fer fram. Og það er ekkert óeðlilegt við að það sé sér símenntunarmiðstöð í Vestmannaeyjum.