132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar.

182. mál
[15:16]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég held að við getum öll tekið undir það, sérstaklega við landsbyggðarþingmenn sem höfum kynnt okkur það mjög vel, að sú starfsemi sem fer fram í fræðslu- og símenntunarmiðstöðvunum er mjög mikilvæg. Hún er mjög mikilvæg sem byggðamál en það breytir auðvitað ekki því að setja þyrfti um það skýrari línur hvert við erum að stefna.

Starfið í fræðslu- og símenntunarmiðstöðvunum hófst sem grasrótarstarf og er rétt að halda því til haga að það var á Austurlandi eins og margt gott á uppruna frá. Þetta var eins konar grasrótarstarf sem í upphafi var stutt af fjárlaganefnd. Nú er starfsemin orðin viðamikil og margir í námi í þessum háskólasetrum og annars staðar þar sem kannski er frekar hægt að kalla fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar. Þetta er mismunandi starfsemi, það þarf að gera ákveðnar kröfur og við hljótum (Forseti hringir.) að stefna að því að setja ákveðinn lagaramma um þetta þegar fram líða stundir.