132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar.

182. mál
[15:17]
Hlusta

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina og svarið. Auðvitað skipta þessar fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar afar miklu máli fyrir hvert svæði í heild og það átak sem er í þessum efnum er mjög af hinu góða. Það er líka mjög brýnt að gera ekki upp á milli stöðvanna. Starfið hefur þróast með tímanum og setja þarf ákveðinn lagaramma um það. Það skiptir Íslendinga mjög miklu máli en það skiptir líka svokallaða nýbúa afar miklu máli. Við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á að erlent fólk sem býr hér á landi hafi möguleika á að læra íslensku. Þess eru dæmi að allt upp í 10% íbúa ákveðinna sveitarfélaga séu af erlendu bergi brotin og til þess að þeir geti verið fullgildir þegnar í samfélaginu verða þeir að læra íslensku. Símenntunarmiðstöðvarnar eiga einmitt að beita sér fyrir því og ég hvet hæstv. ráðherra, bæði menntamálaráðherra og iðnaðarráðherra, að beita sér af alefli í þessum efnum.