132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar.

182. mál
[15:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svarið sem afhjúpaði einhverja mestu mismunun sem ég hef orðið vitni að í seinni tíð. Ég heyri það á þingmönnum sem tekið hafa til máls, sama hvar í flokki þeir standa, að þeim blöskrar því það hlýtur að vera ætlun okkar þingmanna að þegnum þessa lands sé gert jafnhátt undir höfði. Það eru undarleg skilaboð sem hæstv. ráðherrar senda íbúum landsins að mikilvægara sé að styðja við menntun á sumum svæðum en öðrum, en ekki er hægt að skilja þessa mismunun öðruvísi en svo.

Mér er kunnugt um að á Suðurlandi er kostnaður símenntunarmiðstöðvarinnar eða Fræðslunets Suðurlands eins og það heitir áætlaður um 14,5 milljónir á ári vegna háskólamenntunar einnar. Þessi tiltekna miðstöð nýtur engra annarra styrkja af hálfu ríkisins en 9 millj. kr. eins og grunnstyrkurinn er. Sama er að segja um símenntunarmiðstöðina á Vesturlandi og á Norðurlandi vestra. Þar er ekki um neinn aukabónus að ræða og reyndar heldur ekki í Vestmannaeyjum. Og ég vil taka það fram, hv. þm. Drífa Hjartardóttir, að það er mjög ágætt að hafa sérstaka símenntunarmiðstöð í Vestmannaeyjum en hins vegar ber að taka tillit til þess í fjármagni að þar er um lítið svæði að ræða og fáa einstaklinga sem þarf að þjónusta. Á mörgum öðrum svæðum stundar mjög margt fólk nám (Gripið fram í.) við mjög mismunandi aðstæður og það hlýtur að vera eðlilegt að taka tillit til mismunandi aðstæðna.